Hún á ekki rödd. Lánum henni okkar!

Sagt er að siðferðisstyrkur þjóðar sjáist á því hvernig hún kemur fram við börn. Það má bæta við þetta og segja að siðferðisstyrkur þjóðar sjáist á því hvernig hún kemur fram við börn, dýr og náttúruna, þ.e.a.s. þau sem geta ekki varið sig sjálf!

 

800px-gothafossoverviewEf til vill hefur aldrei reynt eins mikið á siðferðisstyrk Íslendinga sem þjóðar og núna þegar hvert áfallið eftir annað dynur á þjóðinni. Allt er gjörbreytt! Það sem áður var tekið sem gefið er núna óvíst og óöruggt: Veröldin er á hvolfi: Atvinnuleysi og peningaleysi er veruleiki þúsunda heimila. Við slíkar aðstæður eykst hættan á að stjórnmálamenn vandi sig ekki og hugsi skammt: Hugsanlega til að bjarga eigin skinni, hugsanlega til að bjarga flokkunum sínum og hugsanlega trúa einhverjir þeirra því að þjóð í erfiðleikum eigi að samþykkja allt gagnrýnislaust.

Núna eru uppi aðstæður á Íslandi sem skapa þá hættu að almenningur fallist á að selja það sem honum hefði ekki dottið í hug að selja meðan allt lék í lyndi og þar er náttúran, sjálf fósturjörðin, í mestri hættu. Náttúran á ekki rödd og getur ekki varið sig sjálf, en við getum valið að tala máli hennar. Hefur nægilega stór hluti þjóðarinnar þann siðferðisstyrk sem er nauðsynlegur til að kunna að meta hana að verðleikum og verja hana núna þegar of margir vilja eyðileggja hana og selja í von um skammtímagróða?!

 

Óafturkræfar breytingar sem eru verðmæti fyrir fáa en eyðilegging fyrir fjöldann

Allt of margir stjórnmálamenn þola ekki óbeislaða náttúru: Þessir stjórnmálamenn eru einstaklingar sem líður illa fái þeir ekki að ráða og ríkja og beygja allt og alla undir sinn vilja. Þessir stjórnmálamenn munu nú sem aldrei fyrr tilbiðja virkjanir og dreyma stóriðjudrauma. Þessir stjórnmálamenn eru skammsýnir og þröngsýnir einstaklingar sem skilja ekki eða vilja ekki skilja hvað hugmyndafræðin um sjálfbæra þróun felur í sér. Þessir stjórnmálamenn eru óþolinmóðir einstaklingar sem virðast ekki vilja skilja að verði krafturinn í náttúrunni virkjaður í stóriðju þá er hann verðmæti fyrir fáa en eyðilegging fyrir fjöldann. Þessir stjórnmálamenn eru einstaklingar sem skreyta mál sitt með hugtakinu sjálfbærni en virðast ekki skilja á hverju hugmyndafræðin um sjálfbæra þróun byggir. Þetta eru stjórnmálamenn sem tala um ferðaþjónustu án þess að horfast í augu við hvað það er sem heldur ferðaþjónustunni á Íslandi gangandi.

 

Virkjanirnar eru ósjálfbærar

Það er alveg sama hvað talsmenn þess að virkja til að afla fyrirhuguðu álveri í Helguvík orku segja oft að virkjanirnar séu sjálfbærar þær eru það ekki! Það stendur til að virkja hvern dropa til að álver í Helguvík fái þá orku sem það þarf - og að því loknu verður ekkert - nákvæmlega ekkert - alls ekkert eftir. Með þessu eru svæðin þurrausin. Orkan mun nýtast í 40-50 ár, segir Ómar Ragnarsson mér og hefur hann það eftir sérfræðingum sem hafa kannað svæðin í langan tíma. Komi ekkert upp á þá mun hafa runnið nægt vatn inn á svæðið á ný eftir 100 ár - já, eftir heila öld! Hugmyndafræðin um sjálfbæra þróun byggir á því að "nýta og njóta án þess að ganga á möguleika næstu kynslóðar til þess sama". Þar sem það tekur svæðin 100 ár að rétta úr kútnum þá sér hver heilvita maður að fyrirhugaðar virkjanir fyrir álver í Helguvík eru ekki sjálfbærar! Það er fleira sem gerir það að verkum að nýting allrar orkunnar í eitt álver er ekki sjálfbær og það er sú staðreynd að stór hluti af tekjunum rennur úr landi til eigenda álversins, en ein fjögurra stoða sjálfbærrar þróunnar er efnahagsstoðin.

 

Ósjálfbær nýting á orku til að skapa störf fyrir 2% þjóðarinnar

Því hefur verið haldið fram svo lengi að áliðnaður sé mikilvæg atvinnugrein á Íslandi að stór hluti þjóðarinnar er hættur að efast um sannleiksgildi þessarar fullyrðingar. Það gildir enn sem fyrr að það skiptir engu máli hvað hið ósanna er sagt oft það verður ekki satt þótt það sé margendurtekið. Einn vandaðasti moggabloggarinn, Lára Hanna, fullyrðir í nýlegri færslu að áliðnaðurinn skapi atvinnu fyrir 2% þjóðarinnar: "Þótt hvert einasta andskotans kílówatt yrði virkjað fyrir þessar samsteypur, og álver byggð til að fullnýta það, þá myndi það skapa störf fyrir 2% þjóðarinnar" (Lára Hanna, 17.09.2009).

 

Bitra er enn á ný í hættu!

Eins og jafnréttismál þá er náttúruvernd eilífðarverkefni. Það tekst að þoka málum áfram en fyrr en varir er stigið skref afturábak. Náttúruunnendur þurfa sífellt að vera á vaktinni, tilbúnir að leggja náttúrunni lið. Fyrir tveimur árum stóð baráttan um Bitru. Það tókst að forða Bitru frá eyðileggingu, en aðeins tímabundið. Sami flokkur manna og þá vildi eyðileggja Bitru er risinn á fætur á ný og byrjaður að kyrja hræðslusönginn um að það verði að virkja til að skapa vinnu. Versið er það sama og fyrr: Leyfa fámennum hópi að eyðileggja náttúruna fyrir skammtímagróða eða sýndargróða!

Af hverju hafa þessir stjórnmálamenn ekki notað síðustu tvö ár til að leggja grunn að störfum sem skapa verðmæti án þess að eyðileggja eina verðmætustu auðlind þjóðarinnar! Hversu verðmætir eru þeir sjálfir þjóðarbúinu???

 

"Birna Borg Sigurgeirsdóttir, forseti bæjarstjórnar í Ölfusi, segir að staðið verði við virkjunarframkvæmdir. Það sé stefna bæjastjórnar að virkja í sveitarfélaginu" (Stöð 2, 30.10.2007). 

 

 

Vilt þú fórna þessu náttúrulega fallega landi fyrir álver í Helguvík?

hengill_15

Það var til að bjarga Bitru sem Lára Hanna stökk inn í bloggsamfélagið fyrir tveimur árum. Þá vildi sveitastjórn Ölfuss koma Bitru fyrir kattarnef. Á þessari slóð eru margar afar vandaðar bloggfærslur Láru Hönnu um Hengilsvæðið.

Í færslunni Valdníðsla í Ölfusi segir hún: "Í Ölfusi eru innan við 2.000 íbúar og pólitískt kjörnir fulltrúar þeirra hafa vald til að ráðskast með svæði sem snertir beint eða óbeint um 200.000 Íslendinga!"

Bitra er ennþá óskemmd en í hættu vegna manna sem geta ekkert séð í friði ef álköggli er veifað framan í þá!

 

Fyrirhugað álver í Helguvík á sér háværa og valdamikla meðmælendur - en óvíst er að þeir séu margir - það er hins vegar ekki hægt að hunsa þá vegna þess að þeir eru stjórnmálamenn og stjórnmálamenn hafa völd - jafnvel þótt aðeins fáein hundruð kjósenda hafi kosið þá! Mundu áður en lengra er haldið að þótt hvert einasta kílówatt yrði virkjað og álver byggð til að fullnýta það þá skapar það störf fyrir 2% þjóðarinnar. Finnst þér náttúran ekki vera meira virði?

 

"Sveitarfélagið Ölfus auglýsti þ. 20 ágúst sl. um breytingu á aðalskipulagi 2002-2014 vegna Bitruvirkjunar, Hellisheiðavirkjunar, iðnaðarsvæða við Þorlákshöfn og Gráuhnúka, niðurfellingu flugvallar, breytingar á vatnsverndarmörkum og akstursíþróttasvæðis, samkvæmt 18. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, m.s.br." (Annar slagur um Bitru í uppsiglingu).

 

Ferðaþjónusta vs. virkjanir og álver 

Við sem þjóð stöndum á krossgötum og það reynir núna verulega á siðferðisstyrk hvers og eins. Okkar verðmætasta auðlind, þ.e.a.s. sú sem skilar mestum tekjum nettó í ríkissjóð, er fiskurinn í sjónum, okkar næstverðmætasta auðlind, landið sjálft, laðar til sín hundruð þúsunda útlendinga ár hvert. Orðspor þjóðar okkar hefur beðið hnekki, en landið okkar er enn jafnvinsælt meðal útlendra ferðamanna. Náttúran er það sem fær lang-lang-langstærstan hluta erlendra ferðamanna til að koma til Íslands: Ferðaþjónustan okkar stendur og fellur með náttúrunni.

 

Fegurð náttúrunnar dregur til sín ferðamenn en orkan í iðrum jarðar dregur til sín fjárfesta. Hver ferðamannahópurinn eftir annan kemur með gjaldeyri til landsins öld eftir öld og allir njóta: Náttúran skapar þjóðinni tekjur ár eftir ár, áratug eftir áratug, öld eftir öld. Fjárfestir sem "kaupir" orkuna í náttúrunni fær allt og þegar orkan er uppurin er náttúran búin að vera: Hún aflar ekki frekari tekna. Þetta vilja talsmenn virkjana ekki skilja.

 

Ísland er þekkt víða um heim fyrir fegurð - verði náttúran nýtt á ósjálfbæran hátt í virkjanir með öllum þeim umhverfislýtum sem þeim fylgja þá getur Ísland orðið þekkt víða um heim fyrir virkjanir, háspennumöstur, miðlunarlón, uppistöðulón og álver þar sem áður var náttúra. Þá verða þau sem "keyptu" orkuna farin með hagnaðinn af orkunýtingunni en eftir stendur þjóð í landi sem laðar ekki lengur til sín ferðamenn.

 

sv-linur

"Skipulagsstofnun telur að heildaráhrif framkvæmda við fyrirhugaðar Suðvesturlínur og styrkingi  raforkuflutningskerfis á Suðvesturlandi verði óhjákvæmilega verulega neikvæð. Stofnunin segir í áliti sínu um mat á umhverfisáhrifum sem hún birtir í dag, að neikvæðustu áhrif fyrirhugaðra framkvæmda verði sjónræn áhrif og áhrif á landslag og þar með einnig á útivist og ferðaþjónustu" (Umhverfisáhrif suðvesturlína óhjákvæmilega verulega neikvæð).

Meira og nánar um afleiðingarnar hér.

Viltu ekki að Íslendingar búi til annars konar störf en að eyðileggja náttúru sem kemur aldrei aftur?

 

Vilt þú geta lagt leið þína að Bitru til njóta fegurðar svæðisins: Viltu geta farið þangað með gesti þína til að sýna þeim fegurð svæðisins: Viltu geta treyst áfram á ferðaþjónustu sem skilar árlega gríðarlegum fjármunum í ríkissjóð: Getur þú í samræmi við hugmyndafræðina um sjálfbæra þróun unnt næstu kynslóðum Íslendinga sömu tækifæra og þú hefur notið: Viltu þiggja hjálp náttúrunnar við að vinna landið okkar og okkur sjálf út úr kreppunni? Skoðaðu þessa síðu og athugaðu hvort þú sért ekki sammála því að vernda Bitru.

 

Bréf hér og allar upplýsingar fyrir þau sem vilja bjarga Bitru með því að gera athugasemdir við breytingar á aðalskipulagi Ölfuss.

 

Landið okkar er heimilið okkar, menning okkar og það sem gerði okkur að þeirri þjóð sem við erum. Þetta sama land er fjárfestingartækifæri í augum þeirra sem ásælast orkuna undir fótum okkar. Náttúran er tilbúin að hjálpa okkur út úr kreppunni með því að halda áfram að laða að erlenda náttúruferðamenn sem eiga við okkur viðskipti og skilja eftir milljarða á milljarða ofan í gjaldeyri. Talaðu máli hennar og leggðu þitt af mörkum til að stöðva fyrirhuguð skemmdarverk.

 

Helga Garðarsdóttir

 

Mynd 1 er af Skjálfandafljóti. Myndin er tekin af síðu SavingIceland.org

Mynd 2 er frá Bitru. Myndin er tekin af síðu SavingIceland.org


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Frábær grein

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 19.9.2009 kl. 20:35

2 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Flestar svona ritsmíðar missa marks vegna þess að höfundur reynir að segja of mikið í of löngu máli. Fæstir nenna að lesa svona langlokur.  Takk samt

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 19.9.2009 kl. 20:59

3 Smámynd: Vaktin

Þakka þér, Jakobína.

Mikið hefði það nú verið vel þegið, Jóhannes, ef þú hefðir fundið hjá þér hvöt til að leggja málefnalega inn í umræðu sem er grafalvarleg og mikilvæg fyrir þjóðina.

Kv.

Helga

Vaktin, 19.9.2009 kl. 21:36

4 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Þakka þér fyrir flotta grein sem ætti það svo sannarlega skilið að fólk leggði sig niður við að lesa hana Mér finnst reyndar að hún ætti að fá birtigu í útbreiddum dagblaðsmiðli! en legg mitt að mörkum við að breiða hana út með því að krækja henni inn á Fésið

Rakel Sigurgeirsdóttir, 20.9.2009 kl. 00:31

5 Smámynd: Anna Karlsdóttir

Takk fyrir góða grein!

Anna Karlsdóttir, 20.9.2009 kl. 01:10

6 Smámynd: Vaktin

Þakka þér, mín kæra Akureyrarmær

Ómar Ragnarsson verður í þættinum Sprengisandur á Bylgjunni í fyrramálið, óþreytandi sem fyrr að tala máli náttúrunnar og komandi kynslóða sem eiga sama rétt og við til að njóta og nýta skv. hugmyndafræðinni um sjálfbæra þróun.

HG

Vaktin, 20.9.2009 kl. 01:12

7 Smámynd: Vaktin

Og Anna, takk kærlega.

Vaktin, 20.9.2009 kl. 02:10

8 Smámynd: Benedikt Gunnar Ófeigsson

Takk fyrir greinina hún er frábær.

Bara til að leggja eithvað til málanna.
Hversu lengi jarðvarmavirkjun endist eru ekki nákvæm vísindi (rannsóknir á einstökum svæðum eru yfirleitt takmarkaðar og umræðan virðist byggja á allt of miklum ágiskunum). Miðað við hvernig menn haga sér á Reykjanesinu er allt eins líklegt að þessar virkjanir endist bara í 15-20 ár. Eins og menn nýta Reykjanesið núna (ef ég skil Stefán Arnórsson rétt), þá eru menn að draga orkuna 4 sinnum hraðar en matið á 50 ára þoli svæðisins er.

Umgegnin um þessa verðmætu auðlind er glæpsamleg.

Benedikt Gunnar Ófeigsson, 21.9.2009 kl. 09:50

9 Smámynd: Vaktin

Takk kærlega fyrir innleggið þitt, Benedikt!

Mjög athyglisvert það sem þú segir um rannsóknirnar. Það vantar svo tilfinnanlega að fjölmiðlar hleypi fagfólki að til að fræða okkur öll um þessar skelfilegu fyrirætlanir á Reykjanesinu. Sjónvarpið ætti auðvitað að gera fræðsluþátt um þetta til að við sjáum myndrænt hvað um er að ræða.

Hugsaðu þér, ef virkjanirnar endast í 15-20 ár en gerður verður orkusölusamningur við Century Aluminium til mun fleiri ára, hvað þýðir það? Stjórnmálamenn hugsa þetta dæmi ekki til enda!

Við sitjum uppi með nægar óafturkræfar skemmdir á landinu nú þegar eftir ófaglegar ákvarðanir stjórnmálamanna sem ýmist skilja ekki eða vilja ekki skilja. Uppistöðu- og miðlunarlón á hálendinu eru t.d. 314,35 ferkílómetrar. Það jafngildir 39 Hríseyjum eða 23,5 Heimaeyjum. Þessar tölur fékk ég hjá Landsvirkjun sl. haust.

Kv.

Helga

Vaktin, 21.9.2009 kl. 19:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Vaktin
Vaktin

Samtökin Vaktin hafa það hlutverk að vekja upp umræðu í þjóðfélaginu og standa með almenningi. Samtökin beina spjótum sínum og stuðningi að fjölmiðlum og fræðasamfélagi til að dýpka umræðuna.

Skipulag samtakanna er svokallað flatt skipulag. Samtökin mótast af minni "vöktum" sem virkjast eftir því sem tilefni gefst til. Vaktirnar sem eru virkjaðar núna er Icesave-vaktin og ESB-vaktin. Þátttaka í hverri vakt er frjáls og er hverjum og einum frjálst að stofna nýja vakt og leita samstarfs innan samtakanna eða utan um að koma málefni þeirrar vaktar í höfn.

Leita í fréttum mbl.is

Nýjustu myndir

  • Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn á flótta
  • Ásta með þann sólgula
  • 4a666932dd973
  • image001
  • Athugasemd - Bitruvirkjun 1
  • sv-linur
  • hengill_15
  • 800px-gothafossoverview
  • 800px-gothafossoverview
  • Icesave
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 15
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 15
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband