Að mála skrattann á vegginn!

Stöð 2 átti í gærkvöldi hreint ótrúlegt viðtal við Þórólf Matthíasson. (Endilega horfa og hlusta á viðtalið því tónninn og látbragðið eru ómissandi leikmunir til að skilja skilaboðin).

Miklu máli skiptir að Þórólfur er í inngangi fréttarinnar kynntur sem hagfræðiprófessor. Nú er enginn hagfræðiprófessor svona einn út af fyrir sig heima, heldur er starfstitillinn tilkominn vegna þess að viðkomandi starfar við skólastofnun, sem aftur gefur orðum viðkomandi meiri þyngd en ella. Orð hans ganga svo fram af mér að mér finnst að viðkomandi háskólastofnun komi málið við. Hafi hann sjálfur litið svo á að hann væri að tala sem maður úti í bæ þá hefur hann auðvitað málfrelsi eins og hver annar. En hafi hann verið að tala sem fræðimaður og að auki starfandi prófessor við háskólastofnun þá eru orð hans grafalvarleg, svo ekki sé sterkar að orði kveðið.

Fréttmaður: "Þórólfur segir að ef þjóðin hins vegar neiti að greiða Icesave og ákveði að ganga alein án lánafyrirgreiðslu þurfi að treysta á afganginn af utanríkisviðskiptum einan til að endurfjármagna allar erlendar skuldir."

Þórólfur: "Og þá hrynur krónan! Hún fer niður fyrir allt sem að við höfum nokkurn tímann þekkt! Og lífskjör hér hrynja... gjörsamlega. Atvinnuleysi eykst! Þannig að við erum að horfa upp á alveg hrikalega sviðsmynd. Og ég bara vona að það komi ekki til þess að slíkar sviðsmyndir rætist!

Jahérna, það vantar ekki stóru orðin! En rökin vantar hins vegar alveg. Amx.is hefur þetta að segja.

Ég loka ekki augunum fyrir því að atvinnuleysi eigi eftir að aukast, enn síður að þegar gjaldeyrishöftunum verður aflétt þá lækki gengi krónunnar, ég býst við að landflótti bresti á, velferðarkerfið eigi eftir að muna sinn fífil fegurri en framsetning Þórólfs er að mínu mati ekki boðleg!

Jón Daníelsson, hagfræðiprófessor í Englandi hefur sagt að þingmenn eigi ekki að samþykkja ríkisábyrð á fyrirliggjandi samningum við Hollendinga og Breta, Lárus Blöndal hrl. og Stefán Már Stefánsson, lagaprófessor hafa ritað málefnalegar og vel rökstuddar blaðagreinar um að vafi leiki á að tryggingasjóður innstæðna sé með ríkisábyrgð, Eiríkur Tómasson, lagaprófessor hefur sagt að honum finnist þeir Lárus og Stefán Már rökstyðja skoðun sína vel, Ragnar Hall hrl. hefur gagnrýnt samningana málefnalega, undir gagnrýni hans tekur Eríkur Tómasson, lagaprófessor, Herdís Þorgeirsdóttir prófessor hefur skrifað málefnalega gegn samningunum, Michael Hudson hefur ítrekað varað við því að Íslendingar gangi að kröfum Breta og Hollendinga vegna þess að þeir muni ekki geta staðið undir greiðslunum og í dag skrifaði Eva Joly grein sem hún birtir í víðlesnum blöðum í fjórum löndum, þar sem hún talar máli íslenskrar alþýðu af kunnáttu, skilningi, víðsýni og hjartahlýju.

Helga Garðarsdóttir


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Helga,

Það er margt rétt í því sem þú segir og eitt er víst enginn veit hvað gerist hér ef Icesave er samþykkt eða fellt.  Hins vegar eru meiri líkur á að við getum endað upp í öngstræti ef við fellum Icesave.  Það getur verið að það sé hagfræðilega og lögfræðileg "rétt" að fella Icesave en pólitískt séð eru við þá að spila rússneska rúllettu með framtíð landsins eins og Þórólfur er að benda á. Þetta gæti reddast en það gæti líka endað hörmulega, það er málið.   Hinn pólitíski raunveruleiki í löndunum í kringum okkur er alveg á hreinu.  Við getum valið að spila þann pólitíska leik sem okkur stendur til boða,  þar með fáum við aðstoð frá okkar nágrönnum.  Margir eru auðvita móðgaðir yfir kjörunum en betlarar hafa ekkert val.

Andri Geir Arinbjarnarson, 2.8.2009 kl. 22:53

2 Smámynd: Vaktin

Ég tek undir það með þér, Andri, ekkert okkar sem stöndum utan valdaklíkunnar vitum nákvæmlega hvað gerist verði ríkisábyrgð á Icesave-nauðungarsamningunum hvort heldur samþykkt eða felld. En við getum leitt líkum að. Það eru líkurnar og möguleikarnir sem þarf að vega og meta og kýs að byggja mitt mat á orðum sérfræðinganna sem ég nefni í færslunni hér að ofan. Ég hlusta líka á þá sem tala fyrir hinu sjónarmiðinu, en mér finnst málstaður þeirra veikur, ekki síst af því að hann er svo litaður flokkapólitík

Ég er í þeim hópi manna sem getur ekki fellt sig við að valdastéttin í ESB í samvinnu við ríkisstjórn Geirs og Ingibjargar tók af okkur réttinn til að fá úrskurð dómstóls um lagalegt réttmæti krafna Breta og Hollendinga á hendur íslenskri alþýðu. Þótt margir mánuðir séu liðnir síðan stjórnmálamenn snéru málinu frá því að snúast um lögfræði yfir í pólitískar þrætur þá ætla ég ekki að láta eins og það hafi verið réttmætur gjörningur. Ég beygi mig undir dómsúrskurð en ég beygi mig ekki undir hroka ESB og hugsanlegt plott ESB og þáverandi ríkisstjórnar Íslands, sem núverandi ríkisstjórn hefur af óskiljanlegum ástæðum haldið áfram með og vitnar í minnisblöð gegn sinni betri vitund. Minniblöð eru ekki lagabindandi nema þau séu lögð fyrir Alþingi og samþykkt þar.

Michael Hudson hefur ítrekað vakið athygli á því, m.a. í Silfri Egils og á netinu, að taki Íslendingar lán umfram greiðslugetu þá fyrst missi þeir allt lánstraust, vegna þess að sá sem er yfirveðsettur nýtur ekki trausts. Nauðungarsamningarnir eru stórhættulegir og ætti að nægja að benda á gr. 16.3 þar sem Íslendingar eru látnir afsala sér griðhelgi. Þetta staðfestir m.a. Magnús Thoroddsen hrl. og fyrrum forseti Hæstaréttar.

Það kann vel að vera að Icesave sé pólitísk rúlletta fyrir stjórnmálamenn: Það má vel vera að höfnum á ríkisábyrgðinni loki einhverjum dyrum á stjórnmálamenn - en hún lokar ekki frekar dyrum á sauðsvartan almúgann sem stritar í sveita síns andlitis en höfnun myndi gera. Almúginn er í miklum vanda hvort heldur sem er. Með Icesave-nauðungarsamningana á bakinu til viðbótar við allar hinar skuldirnar mun sá hluti alþýðunnar sem getur ekki flúið land strita og strita í sveita síns andlitis sem aldrei fyrr. Þeir sem núna eru á miðjum aldri munu ekki sjá fyrir endann á skuldahalanum þegar starfsævi þeirra lýkur.

Það er rétt hjá þér að vitum nokk hvernig pólitíski raunveruleikinn í löndum næst okkur lítur út núna. En það er trú mín að hann muni breytast hratt ef íslensk stjórnvöld hysja upp um sig buxurnar og fara að tala máli þjóðarinnar í útlöndum.

Við erum mörg sem undanfarna mánuði höfum sent upplýsingar út um allan heim til kunningja okkar og vina og beðið þá að dreifa þeim sem víðast. Oftar en ekki þá kemur í ljós að fólk hefur ekki hugmynd um að Landsbankinn var einkabanki: Fólk hefur ekki hugmynd um að tryggingasjóðurinn var ekki með ríkisábyrgð vegna þess að tilskipun ESB kvað ekki á um ríkisábyrgð: Fólk hefur ekki hugmynd um að það voru einkaaðilar sem seldu þeim 6,25% vaxtaloforð en ekki ríkissjóður Íslands: Fólk hrópar upp yfir sig af hneykslun þegar maður upplýsir það um hvað fjárkröfur Hollendingar og Bretar eru að gera á hendur hverjum og einum Íslendingi, hvítvoðungar og háöldruð gamalmenni meðtalin og spyrji maður: Viltu að þínir þingmenn samþykki svona samning fyrir þína þjóð?, þá er svarið á einn veg: Nei!

Þjóðin mín er ekki betlari! Þjóðin mín er þolandi ófullburða regluverks Evrópusambandsins. Þjóðin mín er þolandi efnahagsárásar að utan, eins og John Perkins hefur útskýrt mjög vel. Þjóðin mín er hörkudugleg og vinnusöm, en hún vill sanngirni.

Ef ESB hefur tekist að fá umheiminn til að trúa því að Íslendingar séu betlarar þá er það stjórnvalda að reka það ofan í ESB.

Kv. Helga

Vaktin, 3.8.2009 kl. 00:05

3 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Þjóðin neyddist til að betla lán frá AGS.  Íslendingar vilja sanngirni það vilja Hollendingar og Bretar líka, ekki satt.  Eru Íslendingar eða Hollendingar og Bretar best settir til að dæma hvað er sanngjarnt hér?  Væri ekki best að fá 3. aðila eins og Norðmenn.  Jú, en vandamálið er að engin þjóð vill taka þetta að sér ekki einu sinn Norðmenn sem þó voru milligöngumenn í deilum Ísraela og Araba.  Hvað segir sú staðreynd okkur?

Andri Geir Arinbjarnarson, 3.8.2009 kl. 08:21

4 Smámynd: Vaktin

Sæll, Andri og takk fyrir innleggið!

Ég get ekki fallist á að þjóðin hafi "betlað" lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Án þess að ég þekki starfsreglur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um það hverjir geta óskað eftir láni frá sjóðnum, þá leyfi ég mér að halda að Íslendingar hafi leitað til sjóðsins vegna þess að þeir eiga rétt á því. Um "betl" hafi ekki verið að ræða heldur beiðni um lán. Það voru hins vegar þung skref að óska eftir láni frá sjóðnum, úr því dreg ég ekki. En almenningur á Íslandi er ekki sekur af því að til þess hafi þurft að koma heldur stjórnmálamenn.

Hafa Íslendingar ekki verið aðilar að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum frá stofnun hans? Er ekki hlutverk sjóðsins að hjálpa þjóðum sem þurfa á láni að halda? Af hverju ætti að líta á lán frá sjóði sem þjóðin á aðild að sem betl?

Ég sakna þess í umræðunni að lítið sem ekkert hefur verið rætt um þau orð Jóns Bjarnasonar, ráðherra, að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sé sífellt að gera meiri kröfur á Íslendinga. Og þá er það ekki síður athyglisvert hvað lítið hefur verið talað um þá áskorun Atla Gíslasonar, þingmanns, að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn leggi "öll spilin á borðin". Hverjar eru kröfur AGS á hendur Íslendingum í dag? Hvaða kröfur er sjóðurinn að gera í dag sem koma ekki fram í upphaflegum samningi Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins?

Það má e.t.v. orða það svo að Geir Haarde hafi suðað í ráðamönnum ýmissa landa um að þeir lánuðu honum og ríkisstjórn hans. Það fer tvennum sögum af því hvers vegna beiðni Geirs og Ingibjargar var vísað á bug. Vildu ráðamenn annarra landa ekki lána íslensku þjóðinni? eða treystu þeir ekki þáverandi stjórnvöldum: stjórnmálamönnum Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar sem höfðu sofið á verðinum og sagt þjóðinni og útlendingum ósatt um ástand efnahagsmála?

Er vandi þjóðar okkar sá að aðrar þjóðir vilja ekki lána okkur eða er vandi þjóðar okkar sá að aðrar þjóðir vilja ekki leggja fé inn í spillingarhítina sem er hér í öllu stjórnkerfinu?

Það er trú mín að flest fólk allra landa vilji sanngirni, jú, Bretar og Hollendingar meðtaldir auðvitað. En eins og ég skrifaði hér að ofan þá hefur Bretum og Hollendingum ekki verið sagður sannleikurinn um tilvist Icesave: Við hverja þeir áttu viðskipti, hverjir báru ábyrgð á reikningum þeirra og hverjir tóku við innleggjunum frá þeim og hugsanlega stálu þeim. Það stendur upp á rikisstjórnina að segja viðskiptavinum Landsbankans sannleikann. Samfylkingin hefur verið í ríkisstjórn frá því fyrir hrun og það er fyrir löngu orðið tímabært að forsystumenn hennar svari af heiðarleika hvers vegna þeir hafa hunsað að upplýsa viðskiptavini Landsbankans um sannleikann í málinu?

Icesave-deilan er að mínu viti ekki sambærileg við áratuga ofsafengnar og ofstækisfullar deilur Ísraela og íbúa Austurlanda nær. Icesave snýst í grunninn um að það verði viðurkennt fyrir dómstólum að regluverk Evrópusambandsins um innstæðutryggingasjóðina stenst ekki þegar heilt bankakerfi einnar þjóðar hrynur. Það þarf ekki samningamenn eða samningaþjóð til að finna málamiðlun í þessu máli, heldur þarf ESB og Bretar og Hollendingar sérstaklega að viðurkenna að Íslendingar eiga rétt á að leita réttar síns fyrir dómstólum.

Evrópusambandið getur ekki verið stikkfrí frá afleiðingum af ófullburða regluverki sínu um frjálsa flutninga fjármagns milli lands.

Einar Már Guðmundsson hefur sagt að Icesave-nauðungarsamningarnir séu hvorki slæmir né góðir - heldur rangir! Ég tek heilshugar undir honum.

Kv. Helga

Vaktin, 3.8.2009 kl. 20:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Vaktin
Vaktin

Samtökin Vaktin hafa það hlutverk að vekja upp umræðu í þjóðfélaginu og standa með almenningi. Samtökin beina spjótum sínum og stuðningi að fjölmiðlum og fræðasamfélagi til að dýpka umræðuna.

Skipulag samtakanna er svokallað flatt skipulag. Samtökin mótast af minni "vöktum" sem virkjast eftir því sem tilefni gefst til. Vaktirnar sem eru virkjaðar núna er Icesave-vaktin og ESB-vaktin. Þátttaka í hverri vakt er frjáls og er hverjum og einum frjálst að stofna nýja vakt og leita samstarfs innan samtakanna eða utan um að koma málefni þeirrar vaktar í höfn.

Leita í fréttum mbl.is

Nýjustu myndir

  • Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn á flótta
  • Ásta með þann sólgula
  • 4a666932dd973
  • image001
  • Athugasemd - Bitruvirkjun 1
  • sv-linur
  • hengill_15
  • 800px-gothafossoverview
  • 800px-gothafossoverview
  • Icesave
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 14
  • Frá upphafi: 18578

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 14
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband