Áhættuþættir Icesave-málsins

Grein eftir Pétur Blöndal, sem birt er í Morgunblaðinu 25. september 2009.

 

ICESAVE-málið fól í sér stórfellda áhættu fyrir íslenska þjóð. Undirritun samninganna hjá fjármálaráðherra festi þessa áhættu í sessi en fyrirvarar Alþingis við ríkisábyrgðina veittu þjóðinni tryggingu gegn óbærilegum áföllum, sem gætu komið upp. Fyrirvararnir gegna þannig sama hlutverki og trygging á húsunum okkar gegn bruna- eða vatnstjóni.

 

Hver er áhætta okkar Íslendinga af Icesave-samningnum? Reglugerð ESB sem sett var í framkvæmd hér á landi með stofnun innlánstryggingasjóðs gerir ráð fyrir að innlánsstofnanir, bankar, beri kostnað af innlánstryggingakerfinu. Ekki skattgreiðendur. Bresk og hollensk yfirvöld óttuðust áhlaup á bankakerfi landa sinna í kjölfar hruns bankanna á Íslandi og ákváðu því einhliða að láta skattgreiðendur greiða tjónið, þar á meðal íslenska skattgreiðendur. Með ofbeldi; beitingu hryðjuverkalaga, greiðslustöðvun og misnotkun AGS, hafa íslenskir skattgreiðendur verið neyddir til að axla þessar byrðar. Icesave-samningarnir festu þessa nauðung í sessi sem og fleiri lagaleg álitamál.

 

Efnahagslegar áhættur Icesavesamningsins eru aðallega þrjár. Í fyrsta lagi gæti miklu minna fengist fyrir eignir Landsbankans en ætlað er og að þær nægi ekki fyrir 75% af kröfum vegna Icesave-reikninganna. Ef þetta hlutfall verður 50% eða jafnvel 30% þegar upp er staðið vex skuldbindingin um fleiri hundruð milljarða. Það gæti komið upp t.d. ef svo ólíklega vildi til að neyðarlögin yrðu dæmd ógild í Bretlandi en bresk lög eiga að gilda um samninginn. Þá njóta Icesave-innlánin ekki lengur forgangs heldur breytast þau í almennar kröfur. Í öðru lagi gæti orðið verðhjöðnun í Bretlandi eða í evrunni eða mjög lág verðbólga. Þá bera lánin mjög háa raunvexti sem verða óbærilegir til mjög langs tíma. Mesta áhættan er þó sú að hagvöxtur á Íslandi verði lítill eða enginn. Hagsagan segir að þjóðir, sem lenda í slíkum aðstæðum, eru ekki líklegar til stórræða. Við ættum þá fullt í fangi með að ráða við bankahrunið og afleiðingar þess og værum alls ekki fær um að taka á okkur viðbótarálögur eins og Icesave-kröfuna.

 

Fyrirvararnir sem Alþingi setti á ríkisábyrgðartillögu ríkisstjórnarinnar miðuðu allir að því að takmarka þessa áhættu þjóðarbúsins. Ef allt gengi eins og áætlanir gerðu ráð fyrir, 75% krafna yrðu greiddar, hagvöxtur yrði 3-4% á ári og „eðlileg“ verðbólga yrði í Bretlandi og í evru yrði allt lánið greitt upp. Byrðin yrði þung en ekki óbærileg. Ef hins vegar forsendur áætlananna bresta og Ísland yrði fyrir einhverju þeirra áfalla sem nefnd eru hér að ofan, yrði byrði landsins þó aldrei meiri en 6% af aukningu landsframleiðslu frá 2008 til greiðsluárs, 2016-2024. Alls í 8 ár. Ef eitthvað er ógreitt af þessum „skuldum“ okkar við Breta og Hollendinga í júní 2024 ætti það eðlilega að falla niður, enda hafa þá einhver ófyrirséð áföll lent á þjóðinni. Í viðræðum, sem þá eiga sér stað um eftirstöðvarnar, yrði Bretum og Hollendingum væntanlega bent á það, sem og að þetta hafi verið nauðungarsamningar alla tíð.

 

Atburðir síðustu viku með dularfullum hugtökum eins og „non paper, one shot“-skilaboðum frá breskum og hollenskum yfirvöldum minna á veröld Harry Potter. Fulltrúi í samninganefnd Hollands hefur einnig sagt að þeir séu bjartsýnir á góða niðurstöðu en tekur fram að „peningarnir verði að skila sér á einn hátt eða annan“. Þetta sýnir að íslenskum yfirvöldum hefur mistekist hrapallega að upplýsa mótaðila sína um efni 2. málsgreinar 1. greinar laganna frá Alþingi en þar segir: „Það er skilyrði fyrir veitingu ríkisábyrgðarinnar að breskum og hollenskum stjórnvöldum verði kynntir þeir fyrirvarar sem eru settir við ábyrgðina samkvæmt lögum þessum og að þau fallist á þá.“

 

Er einhvern veginn hægt að misskilja þetta ákvæði laganna frá Alþingi? Það á að kynna breskum og hollenskum stjórnvöldum þá fyrirvara, sem settir eru við ábyrgðina og þau eiga að fallast á þá. Annars er engin ríkisábyrgð. Hér er ekki verið að bjóða upp á viðræður eða neitt slíkt. Það er lítilsvirðing við Alþingi Íslendinga og fullveldi Íslands ef Bretar og Hollendingar telja sig geta samið um og breytt lögum á Íslandi. Leyndarhjúpurinn um þessa gerninga alla, sem geta orðið „ekki“ gerningar, er svo kapítuli út af fyrir sig.

 

Tillögur Breta og Hollendinga taka burt þær tryggingar, sem Alþingi setti til að verja þjóðina fyrir áföllum. „Skuldin“ á ekki að falla niður 2024 heldur á að framlengja hana endalaust á mjög háum vöxtum. Ef áætlanir ganga ekki eftir og Ísland lendir í áföllum þá skal það borga samt, bara á lengri tíma! Það er fullkomið skilningsleysi á þeim fyrirvörum sem Alþingi setti. Fyrirvarar Alþingis eru trygging, trygging til að verja íslenska þjóð fyrir áföllum af nauðungarsamningunum. Áföllum sem hún gæti illa risið undir og gætu jafnvel valdið langvarandi fátækt og landflótta. Þessa samninga hafa Bretar og Hollendingar neytt upp á Íslendinga með atbeina Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem Ísland var stofnaðili að, og með dyggri aðstoð Evrópusambandsins, Norðurlandaþjóðanna, jafnvel Noregs.

 

Höfundur er alþingismaður.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Vaktin
Vaktin

Samtökin Vaktin hafa það hlutverk að vekja upp umræðu í þjóðfélaginu og standa með almenningi. Samtökin beina spjótum sínum og stuðningi að fjölmiðlum og fræðasamfélagi til að dýpka umræðuna.

Skipulag samtakanna er svokallað flatt skipulag. Samtökin mótast af minni "vöktum" sem virkjast eftir því sem tilefni gefst til. Vaktirnar sem eru virkjaðar núna er Icesave-vaktin og ESB-vaktin. Þátttaka í hverri vakt er frjáls og er hverjum og einum frjálst að stofna nýja vakt og leita samstarfs innan samtakanna eða utan um að koma málefni þeirrar vaktar í höfn.

Leita í fréttum mbl.is

Nýjustu myndir

  • Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn á flótta
  • Ásta með þann sólgula
  • 4a666932dd973
  • image001
  • Athugasemd - Bitruvirkjun 1
  • sv-linur
  • hengill_15
  • 800px-gothafossoverview
  • 800px-gothafossoverview
  • Icesave
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband