Saga fánans sem er tilbúinn til að sameina okkur öll

Við Ásta Hafberg höfum unnið að því á undanförnum vikum að finna eitthvert tákn sem gæti sameinað alla þá sem eru óánægðir og óska eftir breytingum. Það kemur tvennt til að við fundum okkur knúnar til að hafa uppi á slíku samstöðutákni.

Í fyrsta lagi eiga alls ekki allir þess kost að komast á mótmæli eða borgarafundi þó þeir hafi fullan hug á því. Við búum dreift og hefð fyrir slíkum uppákomum hefur alls ekki náð að festast í sessi nema þá helst í Reykjavík og að einhverju leyti á Akureyri. Í örðu lagi hefur það verið nokkuð áberandi að fólk hefur ekki viljað mæta á mótmælafundi og/eða borgarafundi af ýmsum ástæðum. Sumir eiga auðvitað ekki heldur heimangengt þó það sé ekki vegalengdin sem stendur í veginum.

Þeir eru þó alltaf fleiri og fleiri sem bætast í hóp þeirra sem eru óánægðir með núverandi veruleika. Reyndar trúi ég ekki öðru en meiri hluti þjóðarinnar finni fyrir óánægju með framgang mála frá bankahruninu sl. haust. Margir hafa líka fyllst djúpri vandlætingu yfir fréttum af því sem fram fór áður en bankarnir hrundu.

Langflestir hljóta líka að óska breytinga. Breytinga sem lúta að uppbyggingu og lausnum. Breytinga þar sem hagur heildarinnar verður settur í forgang. Ég hef reyndar ekki hitt neinn á undanförnum vikum sem hefur ekki áhyggjur og finnur til vandlætingar yfir þeirri forgangsröðun sem við, almenningur, líðum fyrir.

Þrátt fyrir þetta er ekki víst að nokkur fjölgun verði í röðum þeirra sem koma sér út úr húsi til að mæta á mótmælafundi og/eða borgarafundi. Svo má ekki gleyma þeim sem hafa og eiga þess ekki kost að mæta á slíkar uppákomur af ýmsum ástæðum. Við Ásta Hafberg stóðum t.d. báðar frammi fyrir því í sumar að við komust ekki til að vera við mótmæli sem við studdum samt heilshugar en fóru fram á Austurvelli.

Við ræddum þetta heilmikið og í framhaldinu ákváðum við að leggja höfuð okkar í bleyti og finna eitthvert sameiningartákn fyrir okkur sjálfar og aðra sem hafa staðið í sömu sporum. Nú er það fundið. Það er fáni en hann á sér nokkra sögu sem mig langar til að segja ykkur með aðstoð höfundar hans og eins aðdáanda fánans sem hefur flaggað honum í allt sumar.
Fáninn blaktir við hún við heimreiðina að heimili Georges og fjölskyldu Þessum fána var líka flaggað í mótmælunum hér á Akureyri sl. vetur en hann rekur rætur sínar aftur til leiksýningar sem var sett upp hér á Akureyrarvöku árið 2007. Höfundur hans er Kristján Ingimarsson, leikari (sjá upplýsingar um leikferil hans hér) en verkið sem hann var skapaður fyrir kallaði Kristján Byltingu fíflanna. Þetta segir hann sjálfur um sýninguna:

Bylting fíflanna varð til vegna þess að mér fannst það hlyti að vera einhver annar valmöguleiki í boði en þessi stefna sem við vorum á. Þegar ég fluttist til Íslands frá Danmörku fyrir rúmum þremur árum fann ég svo sterkt fyrir þessum sjúkleika í þjóðfélaginu. Firringin var svo augljós og græðgin brjálæðisleg. Mig langaði að gera eitthvað til að gefa fólki möguleika á að draga andann. Að sjá hlutina í nýju ljósi. Að hlægja að sjálfum sér. Að minnast einfaldleikans. 

Akureyrarvaka 2007 Þannig varð leiksýningin/ viðburðurinn Bylting fíflana að veruleika. Bylting sem byggðist á að fíflin tóku yfir. Don Quijote sigldi ásamt fríðu föruneyti á fiskibátnum Hugrúnu ÞH240 í gegnum miðbæinn. Hann var reyndar dreginn af Jóa rækju en hjólhýsi sveif yfir höfðum fólks og barist var við vindmyllur. Bæjarstjórn Akureyrar var formlega steypt af stóli við mikil fagnaðarlæti og fáni fíflanna dreginn að húni.

Það voru allir með. Öll fyrirtæki í miðbæ Akureyrar, og Akureyrarbær, flögguðu fíflinum. Kannski vegna þess að þetta var svo naivt. Það varð alveg nýr ferskleiki yfir bænum og ég verð að játa að inni í mér brosti hrekkjusvínið en það var konunni minni, Gitte Nielsen, að þakka að fáninn ber óneitanlega svip af flaggi Christiania í Kaupmannahöfn. Þetta var bylting. Þetta var bylting fíflanna.

Sýningin kom mörgum skemmtilega á óvart. Hún var flott og hún var skemmtileg og eflaust voru margir sem tóku henni bara sem slíkri. Jafnvel að þarna væri bara á ferðinni einhver fíflaskapur. (Sjá umfjöllun akureyskra vefmiðla hér, hér og hér) Sýningin bjó þó yfir dýpri boðskap eins og kemur svo vel fram í orðum Kristjáns sjálfs:

Titillinn á Byltingu fíflanna skírskotar jafnt til fífilsins og fíflsins. Þetta er bylting náttúrunnar. Á þessum síðustu og verstu tímum er ekkert eðlilegra en maður beygi sig í auðmýkt fyrir kröftum náttúrunnar. Að maður stilli sig inn á rythma hennar og gangi eftir hennar takti og syngi með henni.

Með Byltingu fíflanna langaði mig að gera eitthvað. Mig langaði að létta á fólki. Setja niður lítið fræ sem gat blómstrað. Orðið að einhverju sem fólk getur sameinast um. Verið stolt af. Flaggað án spurninga. Flaggað bara af því það finnur fyrir þörfinni. Að leyfa sér að fylgja einhverju án þess að vita hvað það er... fíflaskapnum í sjálfum sér... náttúrunni.

Rögnvaldur gáfaði og Kristján Ingimarsson (Það er rétt að geta þess að myndirnar frá Byltingu fílflanna tók Ragnhildur Aðalsteinsdóttir)

Það voru líka einhverjir sem sáu þessa dýpri merkinguí Byltingu fíflanna. Kristján hafði sáð fræjum og sumir gátu ekki gleymt skilaboðunum. Sennilega hafa þó fáir meðtekið boðskap Kristjáns eins vel og George Hollanders. Hann tók honum opnum örmum og hefur haldið uppi merki byltingarinnar æ síðan.

George og fjölskylda hans tóku nefnilega við fánanum sem Kristján skapaði fyrir þessa sýningu. Þau hafa haldið honum á lofti síðan. Ekki bara hér heima heldur víðar um Evrópu.
Fáninn á ferðalagi í Evrópu Þar sem George tengdi sig þannig við boðskap sýningarinnar þykir mér rétt að segja svolítið frá því hver hann er. George flutti hingað frá Hollandi til Íslands árið 1989. Hann segir sjálfur „að ein ástæða þess að hann ákvað að flytja til náttúruparadísar eins og Íslands hafi verið hinn mikli mannfjöldi og tilheyrandi mengun í heimalandi hans.“ Haustið 1994 stofnaði hann Leikfangasmiðjuna Stubb þar sem hann smíðar sígild tréleikföng úr íslensku timbri og málar með náttúrulegri málningu og bývaxi. En leikfangasmiðurinn er ákafur talsmaður vistvænnar framleiðslu og sjálfbærrar þróunar. (Sjá hér)

Þeim sem vilja kynna sér hugmyndir Georges enn frekar bendi ég á þessa grein hér sem er viðtal sem ber heitið „Smíðar leikföng og hugmyndir að betri heimi“ en hún birtist í Morgunblaðinu 11. janúar sl. Auk þess vil ég benda á að George stóð að stofnun einhvers konar hugmyndasmiðju hér á Akureyri sem hann gaf heitið Grasrót: inðgarðar & nýsköpun (Sjá þennan hóp hér á Facebook)

En áfram með sögu fánans. Ég tek aftur upp þráðinn þar sem frá var horfið og þá er komið að haustinu 2008. Í kjölfar bankahrunsins komu nokkrir Akureyringar og nærsveitarmenn saman og ræddu stöðuna og hugsanleg viðbrögð. Einn þeirra var George Hollanders. Honum og þeim hinum óaði við afleiðingum hrunadansins sem það hafði alla tíð hafnað. Út úr fundarhöldum þessara einstaklinga urðu grasrótarsamtökin Bylting fíflanna til eða Revolution of the Dandelions.

Stofnendur grasrótarsamtakanna gáfu út eftirfarandi yfirlýsingu um tilgang samtakanna: „Bylting fíflanna er grasrótarafl sem leitar skapandi og framsýnna hugmynda og lausna um nýjan veruleika og betri framtíð.“ (Sjá t.d. hér og svo má benda á að samtökin eru með síðu inni á Facebook) George fékk ekki aðeins leyfi Kristjáns Ingimarssonar, góðvinar síns, til að kenna samtökin við sýninguna, Byltingu fíflanna, heldur varð fáninn sem var skapaður fyrir þá byltingu sem þar var sett á svið tákn mótmælanna hér á Akureyri.
Frá fyrstu mótmælunum á Akureyri undir fána Byltingar fíflanna Þessi byltingarfáni var líka áberandi í göngunni hér á Akureyri 1. maí sl. Þar sómdi hann sér vel með kröfuspjöldum og öðrum fánum. Kristján er hér á miðri mynd í lopapeysu og George honum á hægri hönd. 1. maí-gangan á Akuryeri 2009 (Mads Vegas, sem er tæknimaður Kristjáns Ingimarssonar, tók þessa mynd)

Allir Íslendingar þekkja túnfíflilinn. Margir líta á hann sem illgresi en þrátt fyrir baráttu bænda, bæjarstarfsmanna og garðeigenda þá finnur hann sér alltaf leið til að lifa af. Hann skýtur niður rótum við ótrúlegustu skilyrði, breiðir úr sér, blómstrar og hlær við öllum veðrum.

Malbiksblóm Þetta er það blóm sem allir Íslendingar hafa tengingu við...að mínu mati fallegasta blómið í íslenskri náttúru. [...] Kemur alltaf aftur, sama hvort hann er reittur upp eða malbikað yfir hann. Áreynslulaust kemur hann aftur, brýst upp úr malbikinu. Ekki til að mótmæla neinu. Honum er nokkuð sama um malbikið. Hann kemur bara til að segja: „Ég er á lífi. Ég er hér... ég er!“ (Kristján Ingimarsson)

Það er eins með fánann. Hann kemur alltaf aftur og aftur og minnir á tilveru sína. Núna kemur hann fram enn einu sinni og er tilbúinn til að gegna því hlutverki sem hann var skapaður til.

Það er líka rétt að ítreka að túnfífillinn er ekki bara blóm eða illgresi. Hann er nefnilega líka Þrír fíflar þekkt lækningajurt. Íslendingar hafa notað rætur hans í seyði og smyrsl til að lækna hina ýmsu sjúkdóma. M.a. bjúg, lifrar- og gallblöðrusjúkdóma og líka við meltingartregðu, svefnleysi og þunglyndi svo fátt eitt sé taldið. Nýlegri rannsóknir hafa líka gefið vísbendingar um að vissir hlutar fífilsins dugi gegn einhverjum tegundum krabbameinsæxla.

Fíflillin var og er jafnvel enn notaður til matargerðar. Búa má til bragðgott fíflavín úr blómunum og blöðin þykja góð í salat. Seyði af fíflablöðum var notað til andlitsþvotta í fegrunarskyni og ristuð rótin var notuð í kaffibæti. (Sjá meira um túnfíflilinn á Vísindavefnum og svo er ákaflega forvitnilegt að fletta upp i Grasnytjum Björns Halldórssonar í Sauðlauksdal til að lesa sér enn frekar til um það gagn sem má hafa af fíflinum)

Íslenski túnfíflillinn er ekkert venjulegt blóm. Þrátt fyrir að margir líti á hann sem illgresi í dag þá þykir öðrum hann ómissandi í ýmis náttúrlyf og sumir nýta hann líka til matargerðar. Og enn gleður hann augu margra Íslendinga sem líta á blómstrandi fífilinn sem innsigli sumarkomunnar. Hver kannast ekki líka við að fyllast undrun og jafnvel aðdáun yfir óbilandi lífseiglu hans? Hver kannast ekki við kátínublandna undrun yfir gulum kolli fífilsins sem hefur brotið sér leið í gegnum malbiksbreiðu rétt eins og hann vilji sanna að hann sé ódrepandi.
Fagur fífill
Íslendingum sem misbýður núverandi þjóðfélagsástand vantar gott tákn sem við getum sameinast um. Tákn sem við getum sett upp til að lýsa því yfir að þó við stöndum ekki úti á torgum og öskrum okkur hás þá stendur okkur ekki á sama. Tákn sem lýsir vandlætingu okkar yfir ríkjandi ástandi og ósk okkar um breytingar. Tákn sem sýnir að við höfum skoðun. Að við erum hér!

Við þurfum ekki að vera hundrað prósent sammála í öllum þeim atriðum sem við erum óánægð með. Við þurfum heldur ekki að vera nákvæmlega sammála um það hverju á að breyta eða hvernig. Hins vegar er ljóst að við þurfum að sameinast um eitthvað ef við viljum ná fram breytingum til góðs.

Fallegir samstöðufíflar Hvað hæfir tákni samstöðu okkar betur en þessi bjartsýnislegi fáni sem á sér nú þegar sögu. Sögu um þrautseigju og von. Sögu sem minnir á fífilinn. Tákninu sem fáninn ber. Fífillinn er nefnilega prýðilegt tákn fyrir þær meginkröfur sem við ættum öll að geta sannmælst um: Ég er hér! Ég lifi... ég er og ég vil vera það áfram!

Í þessu sambandi er kannski rétt að enda á orðum Kristjáns Ingimarssonar sjálfs sem segir: Fyrir rúmum tveimur árum sáði ég fræi sem virðist ekki geta hætt að spíra. Nú viðrist þriðja uppskeran vera að koma fram. Hann virðist getað sáð sér sjálfur þessi fáni. Ef fífillinn getur orðið tákn þess að við stöndum saman sem hópur þá er rétta takmarkinu náð.

Ef þú vilt vera með þá er ekkert annað en eignast fána. Þú getur flaggað honum í fánastönginni þinni. Sett hann á bílinn þinn eða tekið hann með á mótmæli eða aðra viðburði þar sem þér finnst fáninn eiga heima. 

Mig langar til að taka það fram að Kristján var svo höfðinglegur að gefa okkur, samlöndum sínum, höfundarréttinn af fánanum. Fánasmiðjan á Þórshöfn sér um prentun hans og dreifingu. Þeir sem hafa áhuga á að eignast fána panta hann einfaldlega í gegnum vefverslun Fánasmiðjunnar og greitt hann með kreditkorti. Þeir sem nota ekki kreditkort geta pantað fána í gegnum netpóstfangið fanar@fanar.is eða hér. Þeir fá svo pöntunina senda í póstkröfu. 

Að lokum langar mig til að biðja þig að taka þátt í því að láta fréttina af þessu samstöðu- og sameiningartákni berast sem víðast.

                                                                                                                      Rakel Sigurgeirsdóttir


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rut Sumarliðadóttir

Takk fyrir þetta.

Rut Sumarliðadóttir, 22.9.2009 kl. 12:29

2 Smámynd: Kaffistofuumræðan

Hljómar frábærlega. Langar líka að sjá buff, upphandleggsborða o.fl. Vona að sem flestir taki þátt.

Kaffistofuumræðan, 23.9.2009 kl. 00:52

3 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Þetta er frábær hugmynd Við erum með síðu inni á Facebook þar sem okkur langar til að safna hugmyndum í þeim tilgangi að hrinda þeim sem fá hljómgrunn í framkvæmd. Þessi fáni er sú fyrsta en það er annað viðspyrnuverkefni í farvatninu. Hópurinn er hér ef þú vilt taka þátt.

Es: Ég er búin að skrifa hagmyndina þína hjá mér. Það er ekki ósennilegt að hún fari inn í umræðu á síðunni þegar hugmynd er komin á fætur.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 26.9.2009 kl. 12:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Vaktin
Vaktin

Samtökin Vaktin hafa það hlutverk að vekja upp umræðu í þjóðfélaginu og standa með almenningi. Samtökin beina spjótum sínum og stuðningi að fjölmiðlum og fræðasamfélagi til að dýpka umræðuna.

Skipulag samtakanna er svokallað flatt skipulag. Samtökin mótast af minni "vöktum" sem virkjast eftir því sem tilefni gefst til. Vaktirnar sem eru virkjaðar núna er Icesave-vaktin og ESB-vaktin. Þátttaka í hverri vakt er frjáls og er hverjum og einum frjálst að stofna nýja vakt og leita samstarfs innan samtakanna eða utan um að koma málefni þeirrar vaktar í höfn.

Leita í fréttum mbl.is

Nýjustu myndir

  • Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn á flótta
  • Ásta með þann sólgula
  • 4a666932dd973
  • image001
  • Athugasemd - Bitruvirkjun 1
  • sv-linur
  • hengill_15
  • 800px-gothafossoverview
  • 800px-gothafossoverview
  • Icesave
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband