Nokkur atriði sem kanna verður til þrautar

Grein úr Morgunblaðinu eftir lögmennina Þorstein Einarsson og Þórhall H. Þorvaldsson.

 

MARGT hefur verið ritað og rætt um hverjum beri siðferðileg og lagaleg skylda að greiða það tjón sem þeir aðilar urðu fyrir, er lögðu peninga á svokallaða IceSave-reikninga Landsbanka Íslands hf. í Bretlandi og Hollandi, í von um skjótari og meiri gróða hjá þeim einkabanka en hjá öðrum bankastofnunum þar í landi. Alþingi telur sig nú þess umkomið að leggja gríðarlegar byrðar á ókomnar kynslóðir Íslendinga, án þess að láta svo lítið að fullnægja þeim augljósa lagalega og siðferðilega rétti landsmanna að fá úr málinu skorið fyrir hlutlausum dómstóli, sbr. 70. gr. stjórnarskrárinnar.

 

Enginn getur dregið í efa að íslenskum stjórnvöldum ber að takmarka tjón sitt, en í umræðunni er oftast talað um að breska ríkið hafi ábyrgst innlán í IceSave þar í landi. En hafa menn athugað ákvæði 1. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta? Þar segir um Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta: „Sjóðnum er heimilt að nýta sér kröfur viðkomandi fjármálafyrirtækis á hendur viðskiptamanni til skuldajafnaðar gegn kröfu viðskiptamanns á greiðslu andvirðis innstæðu.“ Hafi nú breska ríkið yfirtekið kröfur innistæðueigenda í Bretlandi vegna IceSave, má ætla að það hafi þannig fengið stöðu „viðskiptamanns“, sem hefur þá þýðingu að ákvæðinu verði, annaðhvort beint eða með lögjöfnun, beitt um það. Jafnframt er óumdeilt, að fyrsti skuldari innstæðna er Landsbanki Íslands hf. Geti hann ekki greitt kröfurnar kemur til kasta tryggingarsjóðs, svo langt sem ábyrgð hans nær að lögum.

 

Sagt er að Landsbanki Íslands hf. telji sig hafa orðið fyrir tjóni sem skipti hundruðum milljarða króna vegna beitingar breska ríkisins á svonefndum hryðjuverkalögum. Menn hafa fullyrt að of seint sé að láta reyna á þau lög fyrir dómstólum. Það gleymist þó, að unnt er, bæði að breskum rétti og íslenskum, að fá það tjón metið með réttum hætti. Síðan mætti lýsa einhliða yfir skuldajöfnuði í samræmi við fyrrgreint ákvæði 9. gr. Hér þarf enga málsókn til. Verði breska ríkið ósátt við slíkt mat eða skuldajöfnuðinn, þarf það að hafa frumkvæði að því að hnekkja þessum atriðum. Þá myndu hryðjuverkalög Breta óhjákvæmilega koma til athugunar í dómsmáli, að frumkvæði þeirra sjálfra.

 

Telji menn hins vegar vafa leika á framangreindri heimild til að beita 9. gr. laganna mætti kanna hvort ekki væri unnt að treysta aðild tryggingarsjóðsins að skuldajöfnuði með því að framselja honum kröfu Landsbankans, eftir atvikum með samkomulagi bankans og sjóðsins um að síðar komi til innbyrðis uppgjörs þeirra í millum. Óháð öllu þessu kann skilanefnd Landsbankans að hafa rétt til skuldajafnaðar samkvæmt almennum reglum, geri Bretar kröfu í þrotabúið, sbr. hér síðar. Skuldajöfnuður er í öllum aðalatriðum eins í vestrænum rétti. Spurningin er, hvort um sé að ræða kröfur sem hæfar eru til að mætast. Auk alls þessa verður að hafa í huga að hvorki Landsbankinn né íslenska ríkið hefur fallið frá rétti til málshöfðunar á hendur breska ríkinu, og er sjálfsagt að hafa fyrirvara um það atriði í samningnum, þrátt fyrir að Landsbankinn sé ekki aðili að honum. Allt framanritað var hugsað út frá þeirri forsendu að breska ríkið hefði tekið yfir kröfur innistæðueigenda þar í landi.

 

Þegar skoðaðir eru hins vegar samningar Íslendinga, um ábyrgð á þessum kröfum, sést að þeir eru ólíkir eftir því hvort um er að ræða IceSave í Hollandi eða í Bretlandi. Annars vegar er talað um að breski innlánstryggingasjóðurinn hafi leyst kröfur breskra innistæðueigenda til sín, en hins vegar hafi hollenska ríkið, það er seðlabankinn þar í landi, fengið kröfur hollenskra innistæðueigenda framseldar. Skyldi ástæðuna vera að finna í framangreindum hugleiðingum? Nærtækara er þó að ætla, að ástæðan sé sú, að hollenski seðlabankinn sjái um tryggingarkerfið þar í landi, en í Bretlandi sé það í höndum sérstaks innistæðutryggingasjóðs, sem kann að vera sjálfstæð lögpersóna.

 

Þá verður að spyrja, hvort slík yfirtaka á innistæðum breskra innistæðueigenda samræmist hlutverki innistæðusjóðsins breska, samkvæmt lögum þar í landi sem hljóta að vera reist á margumræddri tilskipun Evrópusambandsins. Verður að ætla, að innistæðutryggingasjóðurinn breski sé grundvallaður á fjárframlögum bankastofnana, en ekki frá breska ríkinu. Þetta þarf að kanna ofan í kjölinn áður en Alþingi afgreiðir málið. Þá er ljóst að innistæðukröfurnar (þ.e. ekki einungis þær kröfur sem íslenska ríkið ætlar að ábyrgjast heldur allar innistæðurnar sem Bretar ábyrgðust nánast að fullu og Hollendingar að stærstum hluta) eru langstærsti hluti forgangskrafna í bú Landsbankans. Hins vegar hefur verið deilt um hvort endurkrafa íslenska ríkisins njóti forgangs fram yfir kröfur breska ríkisins (eftir atvikum breska innistæðutryggingasjóðsins) vegna ábyrgða Breta á innistæðum umfram 20.887 evrur.

 

Hvað sem um þá deilu má segja, verður skilanefnd Landsbankans að lýsa yfir skuldajöfnuði geri Bretar kröfur í þrotabúið og skilyrði skuldajafnaðar reynast vera fyrir hendi. Krafa þrotabús Landsbankans á hendur breska ríkinu er eign þess og vegna annarra kröfuhafa getur skilanefndin ekki leyft þrotabúinu að falla frá skuldajafnaðarrétti, sé hann til staðar, nema íslenska ríkið ábyrgist það tjón sem af því kann að hljótast.

 

Eins og áður segir, er afar ólíklegt að peningum úr sjóðum breska innistæðutryggingasjóðsins hafi verið varið til greiðslu fjárhæðar allt að 20.887 evrur fyrir hvern innlánsreikning og enn ólíklegra er að sá sjóður hafi greitt það sem umfram var án fjármagns frá breska ríkinu. Þetta þarf því einnig að kanna sérstaklega með tilliti til möguleika til skuldajöfnuðar.

 

Menn hafa talið sig vera þess umkomna að rita út og suður án ábyrgðar um þetta risastóra mál. Við viljum ekki falla í þá gryfju. Málið er hins vegar alvarlegt og varðar miklu, en samkvæmt fréttum frá Alþingi ætla menn að samþykkja samninginn, með nokkrum fyrirvörum, á allra næstu dögum, en því verður ekki trúað að afgreiðsla á dýrasta lagafrumvarpi Íslandssögunnar ráðist af því að einhver vilji komast í sumarfrí vikunni fyrr. Til vonar og vara er þessi grein þó rituð nú, en með þeim formerkjum að málið er ekki lögfræðilega grandskoðað að fullu af okkar hálfu, enda töldum við víst að sjálfsagður fyrirvari um dómstólameðferð hlyti að koma inn í samþykkt Alþingis.

 

Ef hugleiðingar þessar eru réttar þá getur það varðað gríðarmiklu að stíga varlega til jarðar. Auk þess höfum við haft af því spurnir að þessi atriði hafi ekki verið athuguð sérstaklega við meðferð málsins hjá nefndum Alþingis og einnig að lítið samráð hafi verið haft við skilanefnd Landsbankans áður en samningurinn var gerður. Menn verða að átta sig á því að Bretar hafa haft her manns til að skoða allar hliðar málsins í því skyni að tryggja sem best sína hagsmuni. Athuga verður betur hvort samningurinn við Breta hindri framangreinda möguleika til skuldajöfnuðar eða að væntanleg skuldajafnaðaryfirlýsing skilanefndar Landsbankans nýtist ekki íslenska ríkinu að fullu.

 

Niðurstaða frekari skoðunar á þessum atriðum sem hér eru reifuð, sem og öðrum lögfræðilegum atriðum varðandi samningana báða, gæti meðal annars leitt til þess að frekari fyrirvara verði að setja í samninginn, til dæmis að líta verði svo á að breska ríkið sé væntanlegur kröfuhafi í þrotabú Landsbankans vegna IceSave en ekki þriðji aðili, þannig að skuldajafnaðarréttur sé tryggður.

 

Hér er ekkert lögfræðistagl á ferðinni heldur mögulegur blákaldur veruleiki og forspá um mögulegar deilur milli skilanefndar Landsbankans og breska ríkisins. Slíkar deilur milli þrotabús einkafyrirtækis og breska ríkisins geta aldrei leitt til þess að svokallað samfélag þjóðanna láti Íslandi blæða. Skilanefnd ber að sinna skyldu sinni óháð vilja íslenskra stjórnvalda. Menn í öllum stjórnmálaflokkum ættu a.m.k. að vera sammála um að íslenska ríkið ætti ekki að greiða Bretum – eða Hollendingum – meira en Landsbankinn skuldar þeim sem aðalskuldari IceSvave-reikninga. Málið verður að kanna til þrautar. Fyrr má ekki samþykkja fyrirliggjandi frumvarp um ríkisábyrgð.

 

Höfundar eru lögmenn í Reykjavík.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Vaktin
Vaktin

Samtökin Vaktin hafa það hlutverk að vekja upp umræðu í þjóðfélaginu og standa með almenningi. Samtökin beina spjótum sínum og stuðningi að fjölmiðlum og fræðasamfélagi til að dýpka umræðuna.

Skipulag samtakanna er svokallað flatt skipulag. Samtökin mótast af minni "vöktum" sem virkjast eftir því sem tilefni gefst til. Vaktirnar sem eru virkjaðar núna er Icesave-vaktin og ESB-vaktin. Þátttaka í hverri vakt er frjáls og er hverjum og einum frjálst að stofna nýja vakt og leita samstarfs innan samtakanna eða utan um að koma málefni þeirrar vaktar í höfn.

Leita í fréttum mbl.is

Nýjustu myndir

  • Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn á flótta
  • Ásta með þann sólgula
  • 4a666932dd973
  • image001
  • Athugasemd - Bitruvirkjun 1
  • sv-linur
  • hengill_15
  • 800px-gothafossoverview
  • 800px-gothafossoverview
  • Icesave
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband