Athugasemdir vegna breytinga á aðalskipulagi Skeiða- og Gnúpverjahrepps

Smugan.is birtir meðfylgjandi bréf Atla Gíslasonar hrl. til umhverfisráðherra.

 

Umhverfisráðuneytið Skuggasundi 1,150  Reykjavík.

Reykjavík, 18. ágúst 2009.

Efni:  Athugasemdir vegna breytinga á aðalskipulagi Skeiða- og Gnúpverjahrepps.

            Með bréfi dags. 14. janúar 2009 gerði ég ýmsar athugasemdir við skipulagsbreytingar Skeiða- og Gnúpverjahrepps og krafðist þess að umhverfisráðherra ógilti hina samþykktu skipulagstillögu.  Til vara að umhverfisráðherra synjaði um staðfestingu á tillögu um hið breytta aðalskipulag og til þrautavara að staðfestingu yrði frestað.   Um málavexti, rökstuðning og lagarök er vísað til bréfsins sem fylgir hjálagt og enn fremur er vísað til fylgiskjala með bréfinu sem ráðuneytið hefur undir höndum.  Með úrskurði umhverfisráðherra dags. 12. maí 2009 var það niðurstaða ráðuneytisins að ekki væri unnt að staðfesta umrædda skipulagstillögu vegna þess að sveitarstjórnin hafði ekki fullnægt fyrirmælum 1. mgr. 17. gr. laga nr. 73/1997.  Sveitarstjórnin brást við úrskurðinum með því að halda kynningarfund og mun síðan hafa sent ráðuneytinu skipulagstillöguna á nýjan leik til staðfestingar.  Þessari málsmeðferð er mótmælt sem ólögmætri og ítreka ég kröfur settar fram í fyrrnefndu bréfi dags. 14. janúar 2009 og rökstuðning sem þar kemur fram og í fylgiskjölum, sbr. meðfylgjandi skjalaskrá.  Það skal tekið fram að með bréfi dags. 18. júní 2009  til sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps ítrekaði ég fyrri kröfur mína og rökstuðning, sbr. hjál. ljósrit. 

            Með úrskurði umhverfisráðherra dags. 12. maí 2009 er einungis tekin afstaða til eins atriðis í rökstuðningi mínum fyrir framsettum kröfum, þ.e. að kynningarfundur hafi ekki verið haldinn um skipulagstillöguna, sbr. athugasemd Skipulagsstofnunar.    Geri ég kröfu til þess að umhverfisráðherra taki efnislega afstöðu til allra þátta í röksemdafærslu minni.  Byggt er á því að viðbrögð sveitarstjórnar við nefndum úrskurði séu ólögmæt og til málamynda.  Ég minni á að eitt megin markmið skipulags- og byggingarlaga er að tryggja réttaröryggi í meðferð skipulags- og byggingarmála þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn.  Í þeim anda mæla lögin fyrir um skýrar málsmeðferðarreglur sem ber að fylgja í einu og öllu til þess að markmiðum laganna verði náð.  Í 17. gr. laganna er skýrt kveðið á um kynningu á tillögu að breytingum á aðalskipulagi áður en hún er tekin til formlegrar afgreiðslu, áður en hún er lögð fyrir sveitarstjórn til fyrri umræðu, áður en hún er send Skipulagsstofnun til athugunar, áður en hún er auglýst samkvæmt 18. gr. laganna og almenningi gefinn kostur á að gera athugasemdir við tillöguna, áður en hún er send Skipulagsstofnun til afgreiðslu og áður en hún er send ráðherra til staðfestingar, synjunar eða frestunar á staðfestingu.  Fyrir liggur að sveitarstjórnin braut gegn lagaskyldu um kynningarfund og þar með er allur ferill málsins samkvæmt 18. og 19. gr. laganna ómerkur og að engu hafandi, málsmeðferðin stenst ekki.  Verður að gera kröfu til þess að sveitarstjórnin fylgi lögmæltri málmeðferð eftir kynningarfund sem haldinn var 10. júní 2009.  Til samanburðar má nefna að ef málsmeðferð í einkamáli fyrir héraðsdómi stenst ekki réttarfarsreglur ómerkir Hæstiréttur ævinlega dóma sem eru því marki brenndir og vísar málinu til héraðsdóms til málsmeðferðar að nýju frá þeim tíma er mistökin voru gerð eða hreinlega ómerkir dóm héraðsdóms í heild sinni þannig að byrja verður málið á nýjan leik. Sömu grundvallarreglur gilda í stjórnsýslu sem Hæstiréttur hefur staðfest í fjölda dóma.  Ákvæði skipulagslaga um kynningarfund eru ekki sett til málamynda.  Þessum lagafyrirmælum er ætlað að tryggja réttaröryggi við meðferð skipulags- og byggingarmála.  Þeim er ætlað að tryggja að allir sem telja sig eiga hagsmuna að gæta fái í hendur allar upplýsingaar og geti spurt spurninga og lagt þannig grunn að athugasemdum við tillöguna samkvæmt ákvæðum 18. gr.   Leiðarljós og kjarni umhverfisréttar er að virkja almenning til þátttöku, sbr. til að mynda Ríó-yfirlýsinguna, Árósasamninginn, tilskipanir ESB, lög um evrópska efnahagssvæði, einkum inngang fylgiskjals I um hlutverk einstaklinga og umhverfisvernd, lagaákvæði um upplýsingaskyldu í umhverfismálum o.fl. lagaákvæði sem til að mynda eru tilgreind í réttarstefnu sem var fylgiskjal bréfs míns dags. 14. janúar 2009.  Þannig verði umhverfi okkar best varðveitt og verndað í þágu komandi kynslóða.  Með því að halda ekki lögbundinn kynningarfund á sínum tíma var grundvelli að aðkomu almennings og athugasemdum kippt burt.  Það blasir því við að sveitarstjórnin verður í framhaldi af kynningarfundi hennar 10. júní sl. að feta á nýjan leik þá málsmeðferðarslóð sem mælt er fyrir um í 2. og 3. mgr. 17. gr., 18. gr. og 19. gr. laga nr. 73/1997.  Það ber því að vísa málinu til meðferðar sveitarstjórnarinnar á nýjan leik.  Það dugir engin sýndarmennska í umhverfismálum og óþolandi að skýr lagafyrirmæli og lagamarkmið séu virt að vettugi.   Þessi rök og mörg fleiri eru ítarlega tíunduð í bréfi mínu dags. 14. janúar 2009 og fylgiskjölum, sem ég vísa enn og aftur til.  Allur réttur er áskilinn.  Sérstaklega er óskað eftir því að mér verði gefinn kostur á að tjá mig um öll gögn sem ráðuneytinu hafa borist eða berast vegna málsins.

Virðingarfyllst

Atli Gíslason, hrl.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Vaktin
Vaktin

Samtökin Vaktin hafa það hlutverk að vekja upp umræðu í þjóðfélaginu og standa með almenningi. Samtökin beina spjótum sínum og stuðningi að fjölmiðlum og fræðasamfélagi til að dýpka umræðuna.

Skipulag samtakanna er svokallað flatt skipulag. Samtökin mótast af minni "vöktum" sem virkjast eftir því sem tilefni gefst til. Vaktirnar sem eru virkjaðar núna er Icesave-vaktin og ESB-vaktin. Þátttaka í hverri vakt er frjáls og er hverjum og einum frjálst að stofna nýja vakt og leita samstarfs innan samtakanna eða utan um að koma málefni þeirrar vaktar í höfn.

Leita í fréttum mbl.is

Nýjustu myndir

  • Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn á flótta
  • Ásta með þann sólgula
  • 4a666932dd973
  • image001
  • Athugasemd - Bitruvirkjun 1
  • sv-linur
  • hengill_15
  • 800px-gothafossoverview
  • 800px-gothafossoverview
  • Icesave
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband