Hver á Ísland

Eftir bankahrunið fór hugurinn á ringulreið. Afleiðingarnar af hruninu fyrir samtímann og fyrir framtíð þjóðarinnar fangaði athyglina. Ástandið var alvarlegt og spurningar vöknuðu. Hvernig bregðast stjórnmálamenn við? Iðrast þeir og berjast fyrir hag almennings eða ætla þeir almenningi að taka höggið?

Fyrstu viðbrögð stjórnmálamanna voru einkennileg. Áróðursherferð hófst í fjölmiðlum og af hálfu stjórnmálamanna. Herferðin miðaði að því að beina athyglinni frá sökudólgum og sannfæra þjóðina um að sökin væri hennar. Útrásarvíkingar og stjórnmálamenn fengu drottningarviðtöl og Kristrún Heimisdóttir hvatti þjóðina til æðruleysis. Ekki tókst þó betur til en svo að fólkið dró fram potta og pönnur og skundaði niður á Austurvöll. Ríkisstjórn, sem hafði með leynd og blekkjandi umræðu villt almenningi sýn og grafið undan heilbriðum væntingum, var hrakin úr sessi. Forsmán þessarar ríkisstjórnar var að hún stóð ekki með fólkinu í landinu. Sá sem hefur verið blekktur byggir á þeirri reynslu og finnur fyrir tortryggni. Ef þú platar mig einu sinni ert þú fífl en ef þú platar mig tvisvar er ég fífl stendur einhversstaðar. Ef lagt er út af þessari setningu er ekki furða að fólk krefjist svara. Hver vill vera fíflið?

Byltingin bar með sér væntingar. Í hjarta Íslendinga bærðist óskin um lýðræði, um einlægni og um umhverfi sem ekki væri hulið móðu leyndarmála og blekkinga. Það voru því þjóðinni sár vonbrigði þegar að ríkisstjórn sem kennir sig við velferð og jöfnuð stakk sér umsvifalaust í vasa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og gerði lögmál hans að sínum. Leyndahyggjan er enn ráðandi og hinar raunverulegu fyrirætlanir og staða samfélagsins birtist enn í móðu eða jafnvel sem skrumskæling af veruleikanum.

Umræðan meðal almennings einkennist af spurningum sem ekki fást svör við. Í stað þess að halda uppi umræðu sem miðar að því að auka skilning á atburðarrásinni hella menn áróðri yfir þjóðina og jaðrar stundum við heimskuhjal. Ég heyrði einn ráðamann þjóðarinnar gera lítið úr íslenska hruninu með því að bera það saman við hrunið á Haiti. Haiti búar þurfa að nærast á mold og drullu samkvæmt upplýsingum fulltrúa sem störfuðu þar við hjálparstörf fyrir jarðskjálftanna. Ástandið hefur verið hörmulegt þar um langa hríð. Er þetta samanburðurinn sem ráðamenn á Íslandi vilja sækja? Er þeim allt leyfilegt vegna þess að Haitibúar lifa við hörmungar? Er það smekklegt að notfæra sér slíkt ástand til þess að réttlæta slægt stjórnarfar á Ísland?

Ráðamenn á Íslandi geta svo sem líka borið ástandið á Íslandi saman við svarta forneskju ef þeir vilja fá hagstæðan samanburð. En eigum við ekki að hafa metnað til þess að horfa fram á við og miða að því að skapa gott samfélag, vernda umhverfið og ganga ekki á rétt barna okkar.

Þegar gengið er um götur mætir ásýnd velmegunar. Fólk er snyrtilega til fara og ekki verður séð að það skorti neitt. Undir þessari ásýnd leynast áhyggjur og áhrifaleysi. Prúðbúnir einstaklingar með neikvæða eiginfjárstöðu eru fátækir einstaklingar sem tapað hafa frelsi og valkostum. Fréttir voru af því eftir hrun að 30% þjóðarinnar væri í þessari stöðu og að hlutdeild þeirra myndi aukast. Strategía ríkisstjórnarinnar, sennilega fyrir tilstuðlan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, virðist vera að skapa ró með því að frysta skuldir. Í andrúminu sem myndaðist við frystinguna átti að klára tvö mál. Klára umsókn að ESB og þvinga ábyrgð af skuldum sem siðblindir bankaeigendur söfnuðu í einkabönkum sínum yfir á almenning í landinu. Fyrra málið komst í höfn en hið síðara vofir yfir vegna þess að þjóðin sofnaði ekki á verðinum heldur tók stöðu með framtíð Íslands. Hin falska ásýnd velmegunar blekkti ekki. Stjórnvöldum tókst ekki að sannfæra þjóðina um að það væri siðlegt að selja börnin í ánauð til þess að greiða skuldir hinna siðblindu.

Framundan er afþýðing lána og birting rannsóknarskýrslu Alþingis. Í kjölfarið verður kosið um ríkisábyrgð á Icesave. Viðbúið er að í aðdraganda og kjölfar þessara atburða skapist órói. Tími svika og blekkinga er ekki tími æðruleysis heldur tími uppgjörs og lærdóms.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Elle_

Góður pistill og lýsir ómannleika Icesave-stjórnarinnar vel.  Æðruleysi hvað?  Nei, þau stíga hvorki í heiðarleikann né vitið og steingleymdu líka að það býr fólk en ekki fífl í landinu. 

Elle_, 1.2.2010 kl. 19:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Vaktin
Vaktin

Samtökin Vaktin hafa það hlutverk að vekja upp umræðu í þjóðfélaginu og standa með almenningi. Samtökin beina spjótum sínum og stuðningi að fjölmiðlum og fræðasamfélagi til að dýpka umræðuna.

Skipulag samtakanna er svokallað flatt skipulag. Samtökin mótast af minni "vöktum" sem virkjast eftir því sem tilefni gefst til. Vaktirnar sem eru virkjaðar núna er Icesave-vaktin og ESB-vaktin. Þátttaka í hverri vakt er frjáls og er hverjum og einum frjálst að stofna nýja vakt og leita samstarfs innan samtakanna eða utan um að koma málefni þeirrar vaktar í höfn.

Leita í fréttum mbl.is

Nýjustu myndir

  • Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn á flótta
  • Ásta með þann sólgula
  • 4a666932dd973
  • image001
  • Athugasemd - Bitruvirkjun 1
  • sv-linur
  • hengill_15
  • 800px-gothafossoverview
  • 800px-gothafossoverview
  • Icesave
Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.12.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband