Það er kreppa víðar en á Íslandi. Við ættum kannski að spá oftar í hlutina, í víðara samhengi?

Áhugaverð  grein eftir Noam Chmosky, Crisis and Hope: Theirs and Ours. Hún er unnin upp úr fyrirlestri sem hann hélt 12. Júní síðastliðinn.

Hér er fjallað almennt um heimskreppuna, orsakir afleyðingar og hvernig hagsmunir þeirra valdamestu ganga ávallt fyrir. Mjög áhugavert er að velta fyrir sér hvenær farið var að tala um kreppu á vesturlöndum, þá var ástandið fyrir löngu orðið skelfilegt hjá mörgum þriðja heims ríkjum. Margt þarna sem má yfirfæra yfir á Ísland. T.d. er áhugavert að skoða byrjun greinarinnar í ljósi þess að það fyrsta sem Ingibjörg Sólrún skar niður í utanríkisráðuneytinu var þróunaraðstoð!! Löng og ítarleg grein og hægt að sjá margar hliðstæður á Íslandi og margt sem vert er að hugsa um.

Benedikt G. Ófeigsson


Lesið þetta!

Noregur og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn

Noregur og AGS

Í grein í fréttabréfi norsku Attac-samtakanna segir frá launalækkun til opinberra starfsmanna í Úkraínu.


Í fyrirsögninni er spurt af hverju Noregur styðji þessa launalækkun.

Á einni nóttu hafa laun opinberra starfsmanna í Úkraínu verið lækkuð um 20%. Þetta stafar af því að landið neyddist til að taka lán frá AGS, til að bregðast við hinni alvarlegu efnahagskreppu sem landið er í vegna fjármálahrunsins í heiminum.

Með í skilyrðum lánsins frá AGS var krafa um að lækka kostnað við hið opinbera, en í Úkraínu býr um fimmtungur íbúa við fátækt. Norska ríkisstjórnin hefur veitt 30 milljörðum norskra króna til AGS. Sjóðurinn getur lánað þessa peninga til landa sem lent hafa illa úti í efnahagskreppunni.

Á G20 fundinum í London í apríl lýstu G20 löndin því yfir að AGS myndi fá 750 milljarða dollara til ráðstöfunar. Þessir fjármunir hafa blásið nýju lífi í Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, sem fyrir aðeins ári síðan var nærri gjaldþrota sjálfur. Gjaldþrotahættan stafaði af því að sjóðurinn hafði misst alla tiltrú landa sem áður höfðu verið „viðskiptavinir“ sjóðsins. Meginástæðan fyrir því var að aðgerðir sjóðsins á meðan á Asíukreppunni í lok 10. áratugarins stóð leiddu til þess að kreppan varð bæði lengri og dýpri í mörgum þeirra landa sem tóku við lánum. Sjóðurinn hefur verið harkalega gagnrýndur fyrir að hafa þá (eins og núna) stundað lánastefnu sem vann með kreppunni, dýpkaði hana, þannig að hann gerði kröfur um niðurskurð í opinberum rekstri, meðal annars í heilsu- og menntakerfi, og krafðist einkavæðingar og aukins frelsis fyrir fjármagn. Í framhaldi af þessu spyr norska Attac af hverju norsk fjárhagsaðstoð ætti að leiða til þess að laun úkraínskra opinberra starfsmanna séu lækkuð.

Fjármálaráðherra Norðmanna, Kristin Halvorsen, hefur oft sagt að AGS verði að snúa til baka til að sinna því hlutverki sem hann sinnti upphaflega, og að setja verði sjóðinn undir lýðræðislega stjórn. Ríkisstjórnin lýsti yfir í stjórnarsáttmálanum að SÞ skyldi efla, og að Noregur ætti að stuðla að því að alþjóðlegar fjármálastofnanir eins og AGS ættu að gefa löndum svigrúm, meðal annars til að efla velferðarþjónustu hins opinbera. Niðurskurður í opinbera kerfinu í Úkraínu er ekki eina dæmið. Greining Third World Network á kreppulánum sem AGS hefur veitt níu löndum, Georgíu, Úkraínu, Íslandi, Lettlandi, Pakistan, Serbíu, Hvíta-Rússlnadi og El Salvardor, frá september í fyrra til mars í ár, sýnir að AGS-lánunum fylgja enn á ný kröfur um að stýra fjármálum þannig að kreppan dýpkar („pro-cyklisk“), með strangri peninga- og fjármálastefnu, og niðurskurði á opinberum rekstri. Þetta þekkja Íslendingar vel, ráðgjöf sjóðsins í fjármálum með ofsaháum vöxtum er fáránleg og gerir ekkert annað en að dýpka kreppuna.

Þeir norsku fjármunir sem AGS hefur fengið ganga gegn ráðgjöf nefndar á vegum Sameinuðu þjóðanna um ráðgjöf varðandi fjármálakreppuna, sem Joseph Siglitz leiðir. Nefndin, sem allsherjarþingið skipaði, óttast að aukin styrkur AGS muni leiða til þess að dýpka efnahagskreppuna. Nefndin telur að mannkynið þurfi annars konar lánastofnun, sem er lýðræðislegri og setji ekki skilyrði sem þvingi þau lönd sem fá lán til að reka kreppudýpkandi fjármálapólitík. Nefndin telur að betra sé í núverandi stöðu að afhenda féð svæðisbundnum þróunarbönkum, svo sem Chiang-Mai-aðgerðinni, þar sem svæðisbundnu bankarnir séu bæði lýðræðislegri og hafi meiri skilning á hvaða aðgerða sé þörf í hverju landi á þeirra svæði (ATTAC NORGE)


Vakna, vakna, vakna, gott fólk! Vakna til raunveruleikans!

Tvær tungur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins

Í skýrslu frá Third World Network frá því í mars er ágætt yfirlit um tvær tungur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins:

Önnur fyrir þróuðu löndin, hin fyrir þróunarlöndin og Ísland er í síðarnefnda hópnum ásamt öllum öðrum löndum sem leita til sjóðsins um neyðaraðstoð – markmiðið það eitt að fjármagnseigendur og lánardrottnar verði fyrir sem minnstum skaða.

Á heimasíðiu TWN er einnig að finna mikið efni, ekki bara um IMF heldur einnig um Alþjóðaviðskiptastofnuna (WTO) og aðrar birtingarmyndir á hnattvæðingu í anda nýfrjálshyggjunnar.

Afleiðingar nýfrjálshyggjunnar birtust fyrst í svokölluðum þriðja heimi og því áttu hugmyndir um annars konar hnattvæðingu erfitt uppdráttar á Vesturlöndum.

En nú vakna Vesturlandabúar upp við þann vonda draum að sú sama stefna hittir þá heima fyrir með afdrifaríkum afleiðingum.

Sigurlaug Ragnarsdóttir og Helga Garðarsdóttir


Ísland og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn

Joseph Stiglitz prófessor í hagfræði heldur fyrirlestur í stofu 132 í Öskju. Allir eru velkomnir og aðgangur ókeypis. Fyrirlesturinn hefst kl. 12:30 og síðan taka við pallborðsumræður sem lýkur kl. 14:30.

Stór hópur fólks vill fá Stiglitz sem efnahagsráðgjafa ríkisstjórnarinnar (hugmyndin er ekki komin frá stjórnvöldum frekar en hugmyndin um að leita liðsinnis Evu Joly). Ef þú ert í hópi þeirra sem treysta ekki stjórnvöldum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum til að vinna Ísland upp úr kreppunni án þess að selja frá henni verðmæti og markaðsvæða allt steini léttara, vertu þá með í hópnum. Það gerir þú með því að skrá þig á hér.

 


Á Íslenskt samfélag að vera fyrir fólk, eða fjárfestingartækifæri fyrir innlent og erlent auðvald

Í tilefni að nýsamþykktum Icesave samningi og gjöf á HS orku til Magma energy.

Greinin er gömul en ég birti hana aftur því ég held að innihald hennar fjalli  um þau grundvallar viðmið sem ég tel að eigi að vera leiðarljós í efnahagslífi okkar samfélags í framtíðinni.

----------------------------

Það má furðu sæta að t.d. svona hugmyndir sem miða að því að íslendingar taki málin í eigin hendur séu ekki aðal rökræðuefnið í fjölmiðlum. Er íslensk þjóð samsafn af aumingjum sem ekkert geta gert öðru vísi en undir leiðsögn erlendra auðhringa? Það virðist vera ríkjandi skoðun valda elítunnar í landinu.

Það Þarf að koma í gang umræðu um samanburð á afdrifum  þjóða sem hafa farið leið AGS og þjóða sem hafa farið leið sjálfstæðis. Leið sjálfstæðis, er þá eitthvað í svipuðum dúr og lagt er til hér, þar sem gjaldeyristekjur af innlendri verðmætasköpun  eru notaðar í uppbyggingu á innviðum samfélagsins á forsendum samfélagsins alls (ekki bara ríkustu 10 prósentanna). þar sem við reynum fullnægja matvælaþörf okkar með innlendri framleiðslu og minnkum þörf okkar fyrir innflutt eldsneyti.

Ef við rétt klórum í yfirborðið, við að skoða samanburðinn milli þjóða sem feta veg AGS og þjóða sem taka málin í eigin hendur þá er ágætis byrjun að líta á bók Naomi Klein, Shock Doctrin sem er full af dæmum um örlög þjóða sem feta þann veg sem AGS boðar. þar má nefna dæmi eins og Argentínu, Suður Kóreu, Tæland, Indónesíu, Bólivíu o.s.frv. þessi samfélög eiga það öll sammerkt að stefnan sem þau fylgdu að áeggjan AGS, olli því að stórir hópar samfélagsins lentu í fátæktar gildru. Innviðir samfélaganna, eins og menntun og heilsugæsla urðu fyrir verulegum skakkaföllum og verðmætar eignir fóru á brunaútsölu til erlendra auðhringa.  Afleiðingarnar fyrir marga hópa í þessum samfélögum voru skelfilegar. Eitt frægasta dæmið er einkavæðing vatnsveitu (að undirlagi alþjóðabankans) í borginni Cochabamba í Bólivíu. Vatnsveitan var keypt af dótturfyrirtæki Bechtel.  Sú einkavæðing leiddi til þess að borgabúar með lægstu tekjurnar þurftu að borga yfir fjórðung tekna sinna til að kaupa vatn. Margir lentu í þeirri stöðu að þurfa að velja hvort keyptur var matur eða vatn. Að lokum gerðu borgabúar uppreisn og spörkuðu Bechtel úr landi. Þetta varð reyndar upphafið af gríðarlega öflugri lýðræðishreyfingu í landinu. Dæmið um einkavæðingu vatns í Bólivíu er ekki bara dæmi um skelfilegar afleiðingar þeirrar svokölluðu nýfrjálshyggju sem þvinguð hefur verið upp á margar þjóðir, heldur eitt besta dæmið um það hvernig kúgaðir og fátækir samfélagshópar geta tekið málin í sínar hendur og snúið þróuninni við.  

í Suður Ameríku eru mörg dæmi um samfélög, sem hafa á þessari öld, snúið af braut nýfrjálshyggju og tekið upp sjálfstæða efnahagsstefnu sem (í mismiklu mæli þó) eru drifin áfram með lýðræðislegri hætti en nokkurt vestrænt ríki getur stært sig af. Í mörgum tilfellum hafa ríki Suður Ameríku snúið frá hugmyndafræði hins alþjóðavædda efnahagskerfis sem vesturveldin hafa verið að þvingað upp á heimsbyggðina.  þar sem svokallaðir erlendir fjárfestar hafa töglin og haldirnar í efnahagslífi þjóða. Oft með skelfilegum afleyðingum.

Sú þjóð sem var með þeim fyrstu til að snúa af  braut nýfrjálshyggju og tók upp sjálfstæða efnahagsstefnu er Venezuela. Í skýrslu frá Febrúar 2009, um efnahagsþróunina í Venezuela kemur fram að verg þjóðarframleiðsla hefur næstum 2 faldast síðan 2003 (mesti vöxturinn utan olíugeirans),  Fátækt hefur minkað um helming, aðgangur að heilsugæslu og menntun hefur aukist gríðarlega, ójöfnuður minnkar hratt o.s.frv.
Annað dæmi er Bóliva sem er eitt fátækasta ríki Suður Ameríku og varð skelfilega úti, undir leiðsögn alþjóðabankans, á síðasta hluta 20. aldarinnar og áður undir leiðsögn AGS. Endurreisn Bólivíu er dæmi um virkt lýðræði sem væri fullkomlega óhugsandi á vesturlöndum, Þar sem fátækasta fólk álfunar tók sig saman og kaus forseta úr eigin röðum með það að markmiði að breyta samfélaginu í átt að sjálfstæði gagnvart hinu erlenda og innlenda auðvaldi. Meginmarkmiðin eru yfirráð yfir auðlindum,  félagslegt og efnahagslegt réttlæti, og jöfnuður til hagsbóta fyrir fátækan meirihlutann.
Fleiri dæmi, frá þessari þjáðu álfu, eru um að þjóðir sem hafa sparkað AGS og Alþjóðabankanum úr landi og fylgja nú efnahagsstefnu sem gengur út á byggja upp innviði og samfélagsþjónustu í þágu almennings. Í stað fyrri stefnu sem gekk út á að tryggja hagstætt fjárfestingar-umhverfi fyrir stóra erlenda fjárfesta.

Þær Þjóðir, þar sem almenningur hefur með samstöðu, þvingað valdhafana til að snúa frá stefnu nýfrjálshyggju hafa nær alltaf náð að bæta kjör þeirra sem verst standa, á meðan þær þjóðir sem ganga veg AGS lenda í vítahring ójöfnunar, fátæktar og áhrifaleysis. Stóra spurningin er, ætlar íslensk þjóð að taka málin í sínar eigin hendur eða ætlum við að verða áhrifalausir launaþrælar alþjóðlegra auðhringa.

Benedikt G. Ófeigsson

 


Fáum Joseph E. Stiglitz sem efnahagsráðgjafa ríkisstjórnar Íslands

Hópur kvenna og karla stendur að því að fá Stiglitz sem efnahagsráðgjafa ríkisstjórnar Íslands. Hópurinn hefur um nokkurt skeið unnið nauðsynlega undirbúningsvinnu, m.a. rætt hugmyndina við Stiglitz. Nú er komið að því að hópurinn hvetur þig til að leggja málinu lið með því að skrifa tölvupósta til "þinna" þingmanna og annarra ráðamanna og krefjast þess að Joseph E. Stiglitz verði ráðinn sem efnahagsráðgjafi íslensku ríkisstjórnarinnar.

Vinsamlegast settu þessa yfirskrift á facebooksíðuna sína, sendu tölvupósta á alla sem þú þekkir og birtu áskorunina á blogginu þínu. Síðast en ekki síst segðu öðrum frá og fáðu þá með.


Kjosa.is er áfram opin

Vegna þess að ríkisstjórnin hefur enn ekki skilað forsetanum lögunum til undirritunar þá verður kjosa.is áfram opin til undirritunar.

Finnið a.m.k. tvo til að skrifa undir í kvöld.


Er þetta ein blekkingin enn: Er enn á ný verið að slæva dómgreind almennings?

Fjármálaráðuneytið og iðnaðarráðuneytið sendu frá sér fréttatilkynningu í dag sem fólk ætti að lesa með bæði augu opin og gjalda varhug við (leturbr. og blálitaðar viðbætur eru undirritaðrar):

 

Samstarf um eignarhald á HS Orku

Sameiginleg fréttatilkynning fjármálaráðuneytis og iðnaðarráðuneytis.

Forsendur þess að ganga til samninga við núverandi eigendur að HS Orku um kaup á meirihluta í félaginu verða kannaðar (Hvers vegna er þessi fréttatilkynning send í dag á allra síðustu stundu? Fjármálaráðherrann hefur haft málið í rúma viku: Í hvað eyddi hann þeim tíma?) af viðræðuhópi sem skipaður verður á næstu dögum (Borgarstjórn hefur 14 daga til að staðfesta eða synja ákvörðun stjórnar Orkuveitunnar frá því í dag: Er trúlegt að ráðuneytunum sé alvara ef þau ætla að taka sér nokkra daga í að skipa viðræðuhópinn?)  Hópurinn verður skipaður af ríkinu, lífeyrissjóðum, Grindavíkurbæ, fleiri sveitafélögum auk annarra aðila (Hverjir eru það?) sem rætt hafa samstarf um kaup á eignarhlutum í HS Orku undanfarna daga. Miðað er við að niðurstaða viðræðna um möguleg kaup á meirihluta hlutafjár í HS Orku liggi fyrir á næstu vikum (Það eru hámark tvær vikur til stefnu: Ætla ráðherrarnir að segja eftir hálfan mánuð að tími hafi ekki unnist? Þeir hafa þegar sólunað viðbótarfrestinum sem Magma veitti. Á almenningur að trúa því að það hafi verið óvart?).

 

Stjórnvöld vilja jafnframt að samningar vegna nýtingar jarðhita á Reykjanesi verði endurskoðaðir (Það er í skásta lagi hlægilegt að iðnaðarráðuneytið og fjármálaráðuneytið lýsi yfir vilja sínum í fréttatilkynningu. Fjármálaráðuneytið og iðnaðarráðuneytið hafa alla þræði í hendi sér: Ráðherrar þeirra hafa ákvörðunarvaldið og lagavaldið. Ef þeim er alvara þá setja þeir lög og reglur en lýsa því ekki yfir að þeir vilji það.) í tengslum við samninga HS Orku við ríkið um nýtingu orkuauðlinda í þess eigu á Reykjanesi. Þeirri endurskoðun er ætlað að taka mið af niðurstöðum nefndar (Hverjir sitja í henni? Flokksgæðingar?) á vegum forsætisráðuneytisins sem fjallar um afgjald, leigutíma o.fl. fyrir nýtingu orkuauðlinda í eigu ríkisins og er að vænta fyrir árslok (Er þetta þá mál sem má bíða eins og heimilin?).

 

Þá leggja stjórnvöld áherslu á aðkomu sterkra eigenda (Hvers vegna á að leggja áherslu á styrk? Hvers konar styrk? Hefur VG ekki sagst vera umhverfisvænn flokkur? Ætti fjármálaráðherrann ekki heldur að setja það skilyrði að eigendur vinni í anda hugmyndafræðinnar um sjálfbæra þróun? Kemur iðnaðarráðherrann ekki úr flokki sem gaf út kverið Fagra Ísland? Er þetta alveg gleymt? Er "stekur eigandi" nýyrði yfir "kjölfestu fjárfesti"?) að HS Orku svo gera megi fyrirtækið í stakk búið að gegna áfram mikilvægu samfélagslegu hlutverki við atvinnuuppbyggingu (Hvers konar atvinnuuppbyggingu: Ferðaþjónustu í anda hugmyndafræðinnar um sjálfbæra þróun, sanngjarnt verð á orku til umhverfisvænna fyrirtækja, álver í Helguvík?, framsal á nýtingu orkuauðlinda til að fá pening í flýti? Hvers konar atvinnuuppbyggingu?).

 

Þá munu ríkið og lífeyrissjóðirnir taka upp viðræður um mögulega aðkomu sjóðanna að öðrum (Hver eru þau) verkefnum á sviði orkumála.

 

Fjármálaráðuneytinu 31. ágúst 2009

 

Í stað þess að senda þessa fréttatilkynningu; fréttatilkynningu sem svarar engum spurningum en vekur upp margar, hefði ráðherrunum verið nær að segja almenningi hreinskilnislega hvort Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn bannaði eða vann gegn því að tilboði Magma yrði hafnað.

 

Helga Garðarsdóttir


Er innheimta hlutverk ESB?

Íslensk þýðing á grein hagfræðinganna Gunnars Tómassonar, Michael Hudson og Dirk J. Bezemer sem birt var í dag í hollenska blaðinu de Volkskrant.

Ísland er prófsteinninn. Um það er ekki deilt að skuldir jukust langt úr hófi fram við „útlánavæðingu” síðustu áratuga. Á nýliðnu Greenspan tímabili var lánsfjármögnuð neyzla og síhækkandi verði fasteigna, hlutabréfa og annarra fjáreigna talin vera jafngildi „verðmætasköpunar”. Við erum reynslunni ríkari núna. Verð fasteigna og hlutabréfa er hrunið en skuldirnar standa eftir. Núna, þegar bólan er sprungin, blasa við okkur tvenn viðfangsefni. Hvernig endurreisum við framleiðslukerfið eftir áralanga útlánavæðingu? Og hvernig gerum við upp skuldirnar?

 

Á því síðarnefnda er mikilvægur evrópskur flötur. Hvernig standa evrópuríki að innbyrðis skuldauppgjöri? Spurningin er sérstaklega mikilvæg fyrir minni ríki sem tóku lán í erlendri mynt og eru núna í miklum vanda. Lánardrottnar þeirra eru ríki sem gáfu bönkum lausan tauminn til að skuldsetja heilar þjóðir á gullöld „útlánavæðingarinnar”. Afleiðingin blasir við í erfiðri skuldastöðu Íslands gagnvart Bretlandi og Hollandi, Lettlands gagnvart Svíþjóð, og Ungverjalands gagnvart Austurríki. Og dæmin verða væntanlega fleiri.

 

Vandinn er sá að stjórnvöld frumkvöðla „útlánavæðingarinnar” virðast fúsari til innheimtustarfa fyrir þá og aðra þegna sína en þátttöku í uppbyggjandi átaki við að leysa úr skuldavanda Evrópu og heimsins alls. Jafnframt reyna þau að fá alþjóðastofnanir til að leggja málstað þeirra lið með hótunum um að stuðningur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eða innganga í ESB sé í veði. Það er eftirtektarvert að í almennri umræðu í Hollandi og víðar virðist vera litið á slíka fjárkúgun sem sjálfsagðan hlut væntanlega í ljósi þess að 'skuld er skuld'. Skuldarar hafa notið lífsins með okkar peningum og ber því að borga reikninginn, með ströngum aðhaldsaðgerðum ef svo ber undir.

 

Þetta skýra og einfalda afstaða horfir fram hjá ýmsum óþægilegum staðreyndum. Í fyrsta lagi hafa lánastofnanir hagnast vel á óhóflegri skuldsetningu þjóða. Útreikningar fyrir Lettland sýna að tekjur erlendra banka af vöxtum og fasteignum voru hærri hvert ár frá 1995 til 2008 en sem nam lánum þeirra til Lettlendinga. Það var því hreint útstreymi á fjármagnsreikningi. Viðkomandi bankar (aðallega sænskir) hafa nú þegar hirt hagnað sinn en eftirláta Lettlandi áframhaldandi skuldagreiðslur. Undir forsæti Svíþjóðar hvetur ESB til strangra aðhaldsaðgerða af Lettlands hálfu svo að komist verði hjá greiðslufalli.

 

Í öðru lagi er orsök vandans að hluta til hegðun banka og erlendra lánardrottna í aðdraganda kreppunnar. Nýlega voru birt skjöl sem sýna að stórir Kaupþingshluthafar stuðluðu að hruni bankans með úttekt á andvirði stórra ótryggðra lána til þeirra sjálfra. Aðgerðir Hollendinga og Breta voru ekki síður skaðlegar. Íslenzk stjórnvöld höfðu níu mánuði til að semja um uppgjör við innstæðueigendur skv. ESB tilskipun 94/19/EC. Það hefði hugsanlega leitt til farsællar lausnar ef hollensk og brezk stjórnvöld hefðu kosið að miðla málum. Í staðinn ákváðu þau að lítt hugsuðu máli að borga eigin ríkisborgurum út innstæður þeirra og sendu reikninginn, ásamt hótunum, til Íslands. Gordon Brown beitti jafnframt hryðjuverkalögum til að frysta reikninga sem féllu undir íslenzka lögsögu. Þar með glataðist að fullu það sem e.t.v. hefði mátt bjarga. Með hliðsjón af slíkri hegðun þvert gegn tilskipunum ESB er það hámark hræsni þegar hollenski utanríkisráðherrann Maxime Verhagen hvatti Ísland 21. júlí sl. að „sýna í verki að það taki ESB tilskipanir alvarlega".

 

Í þriðja lagi skal varast að láta sem hér sé um venjulega deilu milli lánardrottna og skuldara að ræða. Fyrir Ísland líkt og Lettland snýst málið um það hvort komist verði hjá algjöru efnahagshruni. Hagkerfið fer einfaldlega í greiðsluþrot ef innheimta á skuldina að fullu. Verg landsframleiðsla Íslands 2008 var 12.3 milljarðar evra. Vegna kreppunnar mun hún e.t.v. verða innan við 8 milljarða í ár, og aðeins að hluta í gjaldeyri. Hollenskar og brezkar kröfur nema samtals 4 milljörðum evra, eða meira en 50% af VLF. Samtals er áætlað að erlendar heildarskuldir Íslands nemi um 240% af VLF. Engin þjóð hefur áður endurgreitt erlenda skuld af þessari stærðargráðu. Ísland skortir auk þess útflutningsgetu til að afla nauðsynlegs gjaldeyris til að endurgreiða skuldina. Ísland ætti því ekki annarra kosta völ en að fjármagna afborganir með nýjum lántökum. Viljum við knýja skuldsettar þjóðir inn á slíka tortímingarbraut? Viljum við að Ísland, Lettland og aðrar þjóðir nái að rétta sig við, eða kjósum við að leggja þeim augljóslega óbærilega skuldabyrði á herðar?

 

Í það minnsta hljótum við að huga skynsamlega að eigin hag. Íslenzkt hagkerfi í skuldafjötrum mun aldrei geta endurgreitt nema hluta skuldarinnar. Spurningin er hvort við höldum fast við óraunhæfar kröfur eða stefnum að raunhæfu uppgjöri? Og hvað með evrópska samhygð sem Verhagen utanríkisráðherra og aðrir hollenskir stjórnmálamenn styðja? Verður hún sett skör lægra en kröfur lánardrottna?

 

Það verður ekki komist hjá því að hugsa til Þýzkalands á þriðja áratug síðustu aldar. Keynes var þá sem hrópandinn í eyðimörkinni og varaði við því að Þýzkaland gæti ekki staðið undir kröfum bandamanna um stríðsskaðabætur. En Þýzkaland var knúið til að takast þær á herðar og stóð í skilum um hríð með lántökum, enda ekki annarra kosta völ. Þetta jók einungis greiðslubyrði landsins og rak aðþrengda þjóð í útbreidda arma öfgafullra stjórnmálamanna. Nítíu árum síðar vitum við lok þeirrar sögu. Við aðstæður sem kröfðust vizku og framsýni reyndust þjóðir bandamanna ótrúlega skammsýnar.

 

Við vitum ekki hvert aðþrengdir Íslendinga, Eystrasaltsbúar eða Ungverjar kynnu að snúa á komandi tíð. Á þessum punkti í samtímasögunni vitum við það eitt að vandinn er okkar allra. Við tókum öll þátt í því að skuldsetja hagkerfi úr hófi fram, og okkur ber því að vinna úr vandanum saman. Það hefur ekki gengið vel til þessa. Vaxandi spennu gætir í samskiptum þjóða og stuðningur við Evrópusambandið fer minnkandi í nýjum og væntanlegum aðildarríkjum. Hvað mun barnabörnunum finnast um okkur eftir nítíu ár?

 

Höfundar:

Dirk J. Bezemer, lektor, University of Groningen, Hollandi

Michael Hudson, prófessor, University of Missouri, Bandaríkjunum

Gunnar Tómasson, hagfræðingur


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Vaktin
Vaktin

Samtökin Vaktin hafa það hlutverk að vekja upp umræðu í þjóðfélaginu og standa með almenningi. Samtökin beina spjótum sínum og stuðningi að fjölmiðlum og fræðasamfélagi til að dýpka umræðuna.

Skipulag samtakanna er svokallað flatt skipulag. Samtökin mótast af minni "vöktum" sem virkjast eftir því sem tilefni gefst til. Vaktirnar sem eru virkjaðar núna er Icesave-vaktin og ESB-vaktin. Þátttaka í hverri vakt er frjáls og er hverjum og einum frjálst að stofna nýja vakt og leita samstarfs innan samtakanna eða utan um að koma málefni þeirrar vaktar í höfn.

Leita í fréttum mbl.is

Nýjustu myndir

  • Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn á flótta
  • Ásta með þann sólgula
  • 4a666932dd973
  • image001
  • Athugasemd - Bitruvirkjun 1
  • sv-linur
  • hengill_15
  • 800px-gothafossoverview
  • 800px-gothafossoverview
  • Icesave
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband