ESB -AGS -Icesave hryllingurinn

Innganga í ESB er mjög umdeild á Íslandi. Samfélagsgerð ESB á sér ekki forvera í heimssögunni. ESB hefur þróast og tekið breytingum í áratugi. Ríki sem gengu í ESB fyrir tuttugu árum síðan gengu í efnahagsbandalag en hafa nú verið innlimuð í sambandsríki. Minni ríki hafa haft lítil áhrif á þróun ESB og þurfa að taka við breytingum sem oft eru innleiddar á forsendum voldugri þjóðríkja.

Það er óljóst hvers konar bandalag ESB mun verða eftir tuttugu ár. Það segir sagan okkur.

Bankahrunið á Íslandi afhjúpaði alvarlegan ágalla á formgerð, hugmyndafræði og regluverki Evrópusambandsins.

Tilskipanir sambandsins eru mótaðar af þjóðum sem fara með flest atkvæði í sambandinu og hafa þar mest völd. Það má spyrja þeirrar spurningar hvort voldugar þjóðir hafi skilning á sérstöðu minni ríkja, aðstæðum og getu þeirra í samfélagi við stærri ríki.

Tilskipun ESB, sem heimilar ekki ríkisábyrgð á tryggingarsjóði innistæðna, var mótuð af valdhöfum ESB. Umhverfi fjármálastarfsemi í Evrópu var mótað af valdhöfum ESB.

Það er á ábyrgð yfirvalda á hverjum tíma að móta löggjöf sem elur af sér kerfi sem gengur upp. Gengur upp fyrir alla sem hlut eiga að máli.

Við bankahrunið á Íslandi í haust kom í ljós að ESB hafði skapað regluverk og viðskiptaumhverfi sem gekk ekki upp fyrir smáþjóð eins og Ísland. Það þýðir ekki að segja að íslenskir útrásarvíkingar hafi verið gráðugir. Víst voru þeir gráðugir en græðgin er einn af þeim þáttum sem ábyrgir valdhafar gera ráð fyrir við hönnun kerfa og mótun viðskiptaumhverfis.

Það er á ábyrgð löggjafans og valdhafanna að móta regluverk sem tryggir það að refsing sé þeirra sem sekir eru, að tapið sé þeirra sem tóku áhættu og að ábyrgðin sé þeirra sem valdið hafa.

Hvernig brugðust þá Evrópusambandsþjóðirnar við bankahruninu á Íslandi? Settust þær niður eins og siðuðum þjóðum sæmir og reyndu að finna lausn á vandanum? Vandanum sem alfarið má skrifa á vanburði þeirra sjálfra við mótun reglna, mótun umhverfis og valkosta. Reyndu þær að takmarka skaðann fyrir alla hlutaðeigandi og vernda hina saklausu?

Nei.

Nei, þessar þjóðir sem sjálfar hafa ekki farið varhluta af græðginni hafa í krafti stærðar sinnar og valda kosið að vernda gallað regluverk fremur en að viðurkenna að regluverkið gengur ekki upp í litlu hagkerfi.

Hagkerfi lítilla þjóða eru viðkvæm. Lítill gjaldmiðill er viðkvæmur. Þegar erlendir áhættufjárfestar og íslenskir bankamenn veðja gegn krónunni nægir það til þess að rústa hagkerfinu. Íslenskir fjárglæframenn voru ekki einir í þessum leik. Leikurinn var háður því að einhver vildi leika við þá og með þeim. Ísland varð í boði íslenskra og erlendra fjármálakerfa að spilavíti alheimsins. Fjármálafyrirtækin voru skráð á Íslandi en leikurinn fór að mestum hluta fram erlendis.

Íslenskur almenningur stendur berskjaldaður frammi fyrir erlendum valdastofnunum sem hafa tekið sig saman um að sjá til þess að íslenskur almenningur sem ekki veðjaði gegn krónunni, sem ekki stofnaði banka erlendis, sem ekki hafði völd til þess að hafa áhrif á þróun bankakerfisins, sem ekki áttu neina aðild að viðskiptunum, já þessar valdastofnanir ætla að sjá til þess að það verði þeir beri tapið.

Við höfum alþjóðagjaldeyrissjóðinn inni á stofugólfi hjá okkur.

Fyrir ári síðan var okkur sagt að íslenska ríkið skuldaði ekki neitt. Í dag er okkur sagt að ríkið skuldi þúsundir milljarða. Hvers vegna þarf íslenska ríkið að skuldsetja almenning. Jú samkvæmt alþjóðagjaldeyrissjóðnum verðum við að gera það til að styrkja krónuna. Til að tryggja það að þeir sem tóku áhættu þurfi ekki sjálfir að bera tapið.

Og hver eru skilyrði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins:

Háir stýrivextir sem eru að drepa atvinnulífið en tryggja bönkum góðar tekjur, bönkum sem síðan á að færa í hendur erlendra lánadrottna og áhættufjárfesta.

Niðurskurður í velferðarkerfi sem mun verða það róttækur að hann mun hafa í för með sér skertar lífslíkur, aukna vanheilsu og minni tækifæri til menntunar.

Mismunun og ójöfnuður í samfélaginu mun aukast ef við höldum áfram á þessari braut.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur nefnilega sagt ríkisstjórninni að hún verði að taka svona mikil lán, safna meiri skuldum en ríkið getur nokkru sinni borgað og setur síðan ríkistjórninni skilyrði sem tryggja það að kreppan hér á landi dýpkar og geta til þess að standa við skuldbindingarnar rýrnar.

Takið eftir að engin af tillögum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins felur í sér að auka styrk íslensku þjóðarinnar. Þvert á móti ganga þessi skilyrði út á að veikja þrótt þjóðarinnar og draga úr varnarmætti hennar og gera hana háða erlendri stóriðju og fjármálastofnunum.

Gordon Brown sagði nefnilega að hann væri í góðum tengslum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og "aðrar stofnanir." Það er varla umdeilanlegt lengur að mótuð hefur verið sameiginleg "strategía" meðal helstu valdastofnanna heims.

Þessar stofnanir eru ríkisstjórn Bretlands, ríkisstjórn Hollands, ESB og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn. Því miður hefur hin svo kallaða vinstri-ríkisstjórn fallist á að fylgja þeirri stefnu sem henni hefur verið sett fyrir. Stefnu sem miðar að því að kollsteypa fjölskyldum og fyrirtækjum sem þjóna þjóðarhag en tryggja sem best hag áhættufjárfesta og aðgang alþjóðafyrirtækja að auðlindum Íslendinga.

Þegar litið er til samskipta íslendinga við aðrar þjóðir fer varla fram hjá neinum að staðan er erfið og vandamálin fjölþætt. Stærstu mistök ríkisstjórnarinnar er að mínu mati að draga aðildarumsókn að ESB inn í þetta öngþveiti sem hér ríkir í ríkisfjármálum, efnahagsstjórn og síðast en ekki síst pólitík.

Þegar innihald Icesave-samningsins er skoðað er ljóst að Íslendingar geta ekki, í því umhverfi sem alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur skapað hér á landi, staðið við skuldbindingar samningsins. Það er algjörlega dagsljóst í mínum huga að þetta skilja Bretar og þetta skilja Hollendingar.

Því spyr ég hvers vegna hafa þessir aðilar lagt fram samning sem þeir vita að Íslendingar geta ekki staðið undir.

Ég spyr einnig hvers vegna hefur ríkisstjórnin ástundað blekkingarleik í marga mánuði til þess að leyna innihaldi samningsins og gögnum hans.

Öll pólitísk umræða hefur beinst að ESB og Icesave. Ríkisstjórnin ber fulla ábyrgð á því. Icesave-samningurinn er þeirra barn og aðildarumsókn að ESB er þeirra barn.

En ég spyr hvar er uppbyggingin.

Hvar er skjaldborg heimilanna?

Hvar eru viðbrögð við vaxandi atvinnuleysi.

Hvar eru aðgerðir til þess að auka tekjur þjóðarbúsins.

Hvar eru aðgerðir sem miða að verðmætasköpun og aukinni fullvinnslu?

Hvar eru aðgerðir sem miða að því að afla markaða fyrir íslenska framleiðslu?

Hvar er hið aukna lýðræði?

Hvar er aukið gangsæi?

Hvers vegna eru skilanefndirnar enn skipaðar mönnum sem tengjast hruninu?

Hvers vegna eru sekir stjórnendur enn að störfum í bönkunum?

 Hvernig ætlar Jóhanna að verja skjaldborg heimilanna þegar bankarnir eru komnir í eigu erlendra lánadrottna?

Já þær eru margar spurningarnar

Ríkisfjármálin hafa verið lögð til hliðar. Athyglinni dreift frá risavöxnum vandamálum sem blasa við fjölskyldum og fyrirtækjum og milljarðar settir í aðildarumsókn um ESB.

Ég legg til að ríkisstjórnin sendi alþjóðagjaldeyrissjóðinn heim, dragi til baka umsókn um aðild að ESB og fari að byggja upp innviði samfélagsins, veiða fisk og fullvinna hann, nota orkuna í þágu atvinnulífsins og fari að greiða niður skuldir í stað þess að safna þeim.

Ræða flutt á Austurvelli

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir


mbl.is Össur: „Diplómatískur sigur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Vaktin
Vaktin

Samtökin Vaktin hafa það hlutverk að vekja upp umræðu í þjóðfélaginu og standa með almenningi. Samtökin beina spjótum sínum og stuðningi að fjölmiðlum og fræðasamfélagi til að dýpka umræðuna.

Skipulag samtakanna er svokallað flatt skipulag. Samtökin mótast af minni "vöktum" sem virkjast eftir því sem tilefni gefst til. Vaktirnar sem eru virkjaðar núna er Icesave-vaktin og ESB-vaktin. Þátttaka í hverri vakt er frjáls og er hverjum og einum frjálst að stofna nýja vakt og leita samstarfs innan samtakanna eða utan um að koma málefni þeirrar vaktar í höfn.

Leita í fréttum mbl.is

Nýjustu myndir

  • Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn á flótta
  • Ásta með þann sólgula
  • 4a666932dd973
  • image001
  • Athugasemd - Bitruvirkjun 1
  • sv-linur
  • hengill_15
  • 800px-gothafossoverview
  • 800px-gothafossoverview
  • Icesave
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 21
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 21
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband